Handbolti

„Hef ekki náð hátindi míns ferils“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Dagur Pálsson er gengin til liðs við Íslands-, bikar- og deildarmeistara Vals.
Aron Dagur Pálsson er gengin til liðs við Íslands-, bikar- og deildarmeistara Vals. Valur Handbolti

Handknattleiksmaðurinn Aron Dagur Pálsson skrifaði undir samning við Íslands-, bikar- og deildarmeistara Vals í vikunni, en hann kemur til liðsins frá Noregsmeisturum Elverum. Aron segir nokkur tilboð hafa legið á borðinu, en honum hafi þótt Valur vera með mest spennandi verkefnið í gangi.

„Þetta var í rauninni þannig séð ekkert erfið ákvörðun,“ sagði Aron Dagur í samtali við Vísi.

„Ég fór þarna til Eskilstuna Guif eftir tvö ár í Alingsås og það fór ekki nákvæmlega eins og maður vildi. Ég skipti svo yfir til Elverum í Noregi á miðju tímabili sem var bara frábært skref fyrir mig. Þar fékk ég að kynnast liði sem komst í 16-liða úrslit í Meistaradeildinni og þetta er bara yfirburðarlið í Noregi. Ég myndi telja það mikið heillaskref þó að maður hefði náttúrulega alltaf viljað spila meira, en þetta var eitthvað sem ég lærði alveg helling á.“

„Eftir það kom eitthvað af áhuga, bæði frá norðurlöndunum og annars staðar, en handboltalega séð þá fannst mér Valur eiginlega bara langmest spennandi. Það er fyrst og fremst það sem varð til þess að ég tók þessa ákvörðun.“

Aron Dagur er enn aðeins 25 ára gamall og því ekki beint á þeim hefðbundna aldri sem leikmenn eru á þegar þeir koma heim úr atvinnumennsku. Hann segir að hann eigi enn nóg eftir af ferlinum og telur sig vera að taka rétt skref með því að skrifa undir hjá Val.

„Eins og þú segir þá er ég ekki á þeim aldri sem flestir eru á þegar þeir koma heim og eru þá kannski á lokametrum ferilsins. En ég er að mínu mati ekki búinn að ná hátindi míns ferils þannig ég er bara drulluspenntur að koma heim og ég taldi mig bara geta bætt mig mest hjá Val svona handboltalega séð af þeim kostum sem voru í boði. Mér finnst það segja ýmislegt um verkefnið sem Valur er með í gangi.“

Spenntur að vinna með Snorra og er vanur að spila hratt

Snorri Steinn Guðjónsson hefur gert frábæra hluti með Val.Vísir/Hulda Margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, hefur gert Val að einu besta liði síðari tíma í íslenskum handbolta og Aron Dagur kveðst spenntur að fá að vinna undir hans stjórn.

„Allt sem Snorri hefur sýnt hingað til sem þjálfari hefur verið alveg frábært þannig að þetta er mjög spennandi. Allt sem maður hefur heyrt af honum hefur verið frábært þannig maður er bara mjög spenntur að kynnast honum betur sem þjálfara og vonandi getur hann gert mig að betri leikmanni líka og látið mig gera Val að betra liði.“

Valsmenn eru þekktir fyrir mjög hraðan og beinskeyttan handbolta þar sem er lögð mikil áhersla á að keyra í bakið á andstæðingnum. Aron segir þetta ekki ósvipaðan stíl og hann er vanur og telur sig því geta fallið vel inn í hópinn.

„Ég var í besta liðinu í Svíþjóð allavega fyrra árið mitt úti þar sem þeir spiluðu í rauninni ekkert ósvipað og Valur er að gera. Þeir lögðu mikla áherslu á fyrsta tempó hraðaupphlaup og að hlaupa alltaf hraða miðju. Svo er Elverum auðvitað þekkt fyrir þetta líka þannig ég hugsa þangað til annað kemur í ljós að þetta verði ekkert glænýir hlutir fyrir mér. Þannig ég held að ég muni bara passa mjög vel inn í þetta allt saman.“

„Ættu að reyna að stefna að því að komast lengra í Evrópudeildinni“

Undanfarin misseri hafa Valsmenn unnið alla þá titla sem í boði eru í íslenskum handbolta. Liðið hefur orðið Íslandsmeistari seinustu tvö tímabil og þá eru Valsmenn einnig ríkjandi bikar- og deildarmeistarar. Þrátt fyrir að hafa ekki enn tekið samtalið við Valsmenn segist Aron þó vera viss um að stefnan sé sett hátt í Evrópukeppni á næsta tímabili.

„Þetta er svo sem ekkert sem ég hef rætt beint við þá. En miðað við mín kynni af því að hafa horft á Val spila og bera það svo saman við eins og bestu liðin í Svíþjóð og Noregi, fyrir utan kannski Elverum sem sker sig aðeins úr, þá sé ég ekki af hverju Valur ætti ekki að geta stefnt á að gera einhverja hluti í Evrópukeppnum.“

„Þeir ættu að vera að reyna að stefna að því að komast lengra í Evrópudeildinni og allt það, en auðvitað fer það að einhverju leyti eftir því hvaða drætti maður fær. En auðvitað væri þetta eitt af þeim skrefum sem væri ótrúlega gaman að taka þátt í ef eitthvað svona ævintýri kemur upp.“

Valsmenn gáfu þýska liðinu Lemgo ekkert eftir í Evrópudeildinni á seinasta tímabili.Vísir/Vilhelm

„En þetta fer rosalega eftir því hvaða lið maður fær en þeir sýndu það bara í fyrra að með smá heppni þá hefðu þeir alveg getað slegið Lemgo út. Eins og ég segi þá verður bara mjög spennandi að sjá hvernig það allt saman fer,“ sagði Aron Dagur að lokum.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir

Aron Dagur semur við Val

Stórar fréttir voru að berast frá Hlíðarenda fyrir skömmu þegar Valsarar tilkynntu nýjasta liðsstyrkinn fyrir komandi leiktímabil, Aron Dag Pálsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×