Fólk undir átján ára aldri hefur ekki getað gengið í hjónaband hér á landi nema með undanþágu frá dómsmálaráðuneytinu. Á árunum 1998 til 2018 fengu átján börn undir átján ára aldri, flest sautján ára, undanþágu frá ráðuneytinu til að ganga í hjónaband.
Þá var lögfest var sú grunnregla sem talin er eiga við hér á landi um viðurkenningu hjónavígslu sem stofnað er til erlendis ef hjúskapurinn uppfyllir hjónavígsluskilyrði og reglur um stofnun hjúskapar í vígslulandinu. Hjúskapur sem stofnað er til erlendis verður þó ekki viðurkenndur hér á landi ef annað hjóna eða bæði voru yngri en 18 ára þegar vígsla fór fram.
Þegar sérstaklega stendur á og ótvíræðir hagsmunir þess sem var yngri en 18 ára krefjast þess verður þó heimilt að viðurkenna hjúskap hér á landi ef viðkomandi hafði náð 16 ára aldri þegar hjónavígsla fór fram og hjúskapurinn er viðurkenndur í því landi þar sem hjónavígslan fór fram.
Markmiðið með þessu er að samræma hjúskaparlög alþjóðlegum tilmælum og viðhorfum varðandi lágmarksaldur til þess að ganga í hjúskap.
Þá voru gerðar breytingar á hjúskaparlögum sem varða lögsögu íslenskra stjórnvalda og dómstóla til að veita lögskilnað í tilteknum tilvikum ef hvorugur aðili býr hér á landi og viðkomandi eru ekki íslenskir ríkisborgarar. Einstaklingur getur nú höfðað mál til hjónaskilnaðar ef hjónavígslan fór fram hér á landi og leitt er í ljós að stefnandi geti ekki höfðað mál í landinu þar sem hann hefur ríkisfang eða er búsettur.