Körfubolti

Ekki tekið skot síðan Lakers tapaði fyrir Suns í byrjun apríl

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anthony Davis ásamt þáverandi þjálfara sínum Frank Vogel.
Anthony Davis ásamt þáverandi þjálfara sínum Frank Vogel. AP Photo/Mark J. Terrill

Anthony Davis, miðherji Los Angeles Lakers, hefur viðurkennt að hann hafi ekki skotið körfubolta síðan hann spilaði síðast fyrir Lakers, þann 6. apríl.

Hinn 29 ára gamli Davis átti við mikil meiðsli að stríða á leiktíðinni og spilaði aðeins 40 af 82 leikjum Lakers á leiktíðinni. Þó leiktíðinni sjálfri sé ekki lokið þá lauk Davis leik eftir tap gegn Phoenix Suns þann 6. apríl og Lakers-liðið spilaði svo sinn síðasta leik fyrir sumarfrí fimm dögum síðar.

Nú hefur Davis viðurkennt að hann hafi ekki skotið körfubolta frá tapinu gegn Suns. Virðist það hafa farið öfugt ofan í marga en ef marka má Hörð Unnsteinsson, þjálfara kvennaliðs KR og einn af sérfræðingum Lögmál leiksins á Stöð 2 Sport er fullkomlega eðlilegt að leikmenn NBA-deildarinnar snerti ekki bolta framan af sumarfríum sínum.

Þá bendir Hörður á að það séu 140 dagar í næsta leik.

Það stefnir í töluverðar breytingar á liði Lakers en liðið mætir til leiks með nýtt þjálfarateymi. Vonast aðdáendur liðsins til að það nái því besta úr Davis sem hefur ekki náð að sýna sínar bestu hliðar síðan liðið varð meistari 2020.

Lokaúrslit NBA-deildarinnar fara nú fram en erkifjendur Lakers í Boston Celtics eru þar ásamt Golden State Warriors. Staðan í einvíginu er jöfn 2-2 en fimmti leikur liðanna fer fram í kvöld. Upphitun hefst á Stöð 2 Sport 2 klukkan 00.30 og leikurinn sjálfur 01.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×