Skoðun

Starfar þú með börnum? Ný náms­leið á sviði far­sældar barna

Herdís Steingrímsdóttir og Ragnheiður Hergeirsdóttir skrifa

Farsæld barna – samþætt þjónusta

Þann 1. janúar s.l. tóku gildi ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Með farsæld er vísað til aðstæðna sem skapa börnum skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar. Lögin kveða á um að tryggja skuli að foreldrar og barn fái upplýsingar um þjónustu í þágu barns, þeim sé boðin aðstoð við að samþætta hana og móta. Lögð er rík áhersla á snemmtækan stuðning á fyrsta þjónustustigi, sem á að vera aðgengilegur öllum börnum og fjölskyldum, svo sem í gegnum skóla og heilsugæslu. Í lögunum er að finna fleiri mikilvæg nýmæli eins og að mismunandi þjónustukerfi skulu eiga samstarf og að börn og foreldrar eigi rétt á sérstökum tengiliði sem aðstoði þau við að fá viðeigandi þjónustu. Auk þess er kveðið á um að ef barn þarf annars eða þriðja stigs þjónustu, sem er sérhæfðari og markvissari stuðningur, þá sé tilnefndur málstjóri sem hafi það hlutverk að veita frekari upplýsingar og ráðgjöf og að leiða samþættingu þjónustunnar.

Nýtt diplómanám – fjarnám með starfi

Rauði þráðurinn í farsældarlögunum eru réttindi barna í samræmi við stjórnarskrá, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og aðrar skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirritað. Mennta- og barnamálaráðuneytið og Háskóli Íslands gerðu á síðasta ári með sér samning um samstarf um innleiðingu á hinni nýju löggjöf. Annar megin þátta í því samstarfi er ný þverfagleg námsleið um farsæld barna en námið er ætlað öllum þeim sem hafa lokið BA/BED/BS prófi og starfa með börnum í frístunda- heilbrigðis-, skóla- og velferðarþjónustu eða á öðrum vettvangi.

Náminu er ætlað að veita þekkingu á barnamiðaðri nálgun, samþættingu þjónustu, hlutverki tengiliða og málstjóra og mati á árangri. Þá verður lögð áhersla á færni í teymisvinnu og þverfaglegri samvinnu auk áherslu á mikilvægi fyrsta stigs þjónustu við börn. Námið, sem er 30 eininga diplómanám, hefst haustið 2022. Um er að ræða nám með starfi, fyrirlestrar og umræðutímar verða í fjarnámi auk þess sem mætingaskylda er í tvær tveggja daga staðlotur á hvoru misseri.

Frestur til að sækja um námið er til 5.júní n.k. Frekari upplýsingar um námið er að finna á slóðinni Farsæld barna, viðbótardiplóma | Háskóli Íslands (hi.is) og hjá undirrituðum/höfundum.

Höfundar eru lektorar á sviði farsældar barna við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×