Körfubolti

Rússar vilja skipta á körfu­bolta­konunni og Kaup­manni dauðans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittney Griner hefur setið í fangelsi í Rússlandi síðan í febrúar.
Brittney Griner hefur setið í fangelsi í Rússlandi síðan í febrúar. Getty/Mike Mattina

Ein besta körfuboltakona heims, Brittney Griner, er enn í haldi Rússa sem framlengdu gæsluvarðhald hennar um heilan mánuð fyrir helgi.

Nýjustu fréttir er að Rússarnir vilji nota hana sem „skiptimynt“ til að fá til baka vopnasölumanninn Viktor But sem hefur verið í haldi Bandaríkjamanna frá 2012.

Viktor But hefur viðurnefnið Kaupmaður dauðans en hann stundaði það að smygla vopnum til Afríku og Miðausturlanda í kringum aldarmótin.

Fréttirnar koma í gegnum rússneska fréttamiðillinn Tass sem lútir að stjórn yfirvalda. Aftonbladet segir frá.

Griner var handtekin á Sheremetyevo flugvellinum í Moskvu í febrúar og var gert það að sök að hafa verið með hassolíu í farangri sínum á flugvellinum, sem notuð er til rafrettureykinga. Griner verður að öllum líkindum ákærð fyrir fíkniefnasmygl og á yfir höfði sér fimm til tíu ára fangelsi verði hún dæmd sek.

Griner, ætti að vera byrjuð að spila með liði sínu í WNBA-deildinni en líkt og fleiri af þeim bestu þá spila þær í Evrópu á meðan ekki er spilað í WNBA.

Sportbladet

Hún er 31 árs gömul, spilar sem miðherji og hefur einu sinni orðið WNBA-meistari, tvisvar verið stigahæsti leikmaður WNBA-deildarinnar, tvisvar verið kosin varnarmaður ársins í WNBA og þrisvar verið valin í lið ársins. Hún hefur einnig unnið Euroleague deildina fjórum sinnum auk þess að verða tvisvar heimsmeistari og tvisvar sinnum Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu.

Griner varð fyrsta konan í sögu WNBA-deildarinnar til að troða tvisvar sinnum í sama leiknum en hún er með 17,7 stig, 7,6 fráköst og 2,9 varin skot að meðaltali í 254 leikjum á WNBA-ferlinum.

Bandarísk yfirvöld segja að varðhaldið yfir Griner sé ólögmætt og eru að vinna að því að henni verði sleppt.

Viktor But er sagður fyrirmyndin af persónu Nicholas Cage í Hollywood kvikmyndinni Lord of war. Hann var handtekinn í Tælandi árið 2008 og framseldur í framhaldinu til Bandaríkjanna. Fjórum árum seinna var hann dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að smygla vopnum til uppreisnarmanna í Kólumbíu en vopnin voru síðan notuð gegn bandarískum ríkisborgurum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.