Körfubolti

Rússar fram­lengja gæslu­varð­hald hinnar banda­rísku Griner

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Griner hefur verið í gæsluvarðhaldi í Rússlandi í um þrjá mánuði.
Griner hefur verið í gæsluvarðhaldi í Rússlandi í um þrjá mánuði. Getty/Mike Mattina

Rússneskur dómstóll framlengdi í dag gæsluvarðhald yfir bandarísku körfuboltakonunni Brittney Griner um heilan mánuð. Griner hefur verið í haldi lögreglu í Rússlandi síðan í febrúar. 

Griner hefur unnið til tveggja gullverðlauna á Ólympíuleikunum og er sögð ein besta körfuboltakona heims. Hún spilar fyrir rússneska körfuknattleiksliðið UMMC Yekaterinbug í Eurolegue og hefur gert það síðan 2014 þá mánuði árs sem bandaríska WNBA-deildin er í fríi. 

Hún var handtekin á Sheremetyevo flugvellinum í Moskvu í febrúar og er henni gert það að sök að hafa verið með hassolíu í farangri sínum á flugvellinum, sem notuð er til rafrettureykinga. Griner verður að öllum líkindum ákærð fyrir fíkniefnasmygl og á yfir höfði sér fimm til tíu ára fangelsi verði hún dæmd sek. 

Bandarísk yfirvöld segja að varðhaldið yfir Griner, sem er 31 árs gömul, sé ólögmætt og hafa bandarísk stjórnvöld útnefnt diplómata til þess að vinna að því að henni verði sleppt. Ræðismaður Bandaríkjanna í Moskvu mætti í dómsal í dag og ræddi við Griner, samkvæmt frétt Reuters

„Hann gat staðfest það að Brittney Griner líður eins vel og hægt er að líða undir þessum kringumstæðum, sem aðeins er hægt að lýsa sem einstaklega erfiðum,“ sagði Ned Price, talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna í tilkynningu í dag. 

Margir telja handtöku Griner pólitíska og Rússar muni nýta sér handsömun hennar í pólitískumm tilgangi gegn yfirvöldum í Washington vegna innrásarinnar í Úkraínu. Það ber einnig að taka fram að Griner er samkynhneigð, sem getur reynst mjög hættulegt í Rússlandi. 

Enn hafa pólitísk samskipti milli Bandaríkjanna og Rússlands ekki verið rofin þrátt fyrir mjög köld samskipti þar á milli frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn. Þá hafa ríkin tvö skipst á föngum síðan þá, síðast fyrir mánuði, þegar bandaríski sjóhermaðurinn Trevor Reed sneri aftur heim úr fangelsi í Rússlandi, þar sem hann afplánaði níu ára dóm fyrir líkamsárás.

Reed var skilað til Bandaríkjanna í skiptum fyrir rússneska flugmanninnn Konstantin Yaroshenko, sem afplánaði tuttugu ára dóm í Bandaríkjunum fyrir fíkniefnasmygl. Bandaríski sjóhermaðurinn Paul Whelan er enn í fangelsi í Rússlandi, en hann var dæmdur í sextán ára fangelsi árið 2020 fyrir njósnir. 


Tengdar fréttir

Stór­stjarnan Britt­n­ey Griner hand­tekin á flug­velli í Rúss­landi

Brittney Griner, tvöfaldur Ólympíumeistari í körfubolta og sjöfaldur þátttakandi í stjörnuleik WNBA-deildarinnar, hefur verið handtekin á flugvelli í Rússlandi eftir að í ljós að kom það var hassolía í rafrettu hennar. Hún gæti átt yfir höfði sér 5 til 10 ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×