Körfubolti

Í röng göng með gæslumenn á hælunum eftir stórt tap gegn Phoenix

Sindri Sverrisson skrifar
Dómarinn David Guthrie reynir að stía þeim Bismack Biyombo og Marquese Chriss í sundur.
Dómarinn David Guthrie reynir að stía þeim Bismack Biyombo og Marquese Chriss í sundur. AP/Ross D. Franklin

Phoenix Suns og Miami Heat tóku forystuna í einvígum sínum í 8-liða úrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Phoenix vann öruggan 110-80 heimasigur gegn Dallas Mavericks og staðan er því 3-2 í einvíginu svo að Phoenix gæti komist áfram með sigri í Dallas annað kvöld. Allir leikir einvígisins hafa hins vegar unnist á heimavelli.

Devin Booker var stigahæstur hjá Phoenix með 28 stig en hann setti meðal annars niður tvo þrista snemma í seinni hálfleik þegar heimamenn bjuggu sér til forskot og komust í 61-50, og síðar 82-60 áður en fjórði leikhluti hófst.

Þó að spennan færi fljótt úr leiknum í seinni hálfleik í gær þá hefur verið talsverður hiti í einvíginu og minnstu munaði að upp úr syði í lok leiks. Bismack Biyombo hafði átt fínan leik fyrir Phoenix en var vísað af velli þegar örfáar sekúndur voru eftir, líkt og Marquese Chriss í kjölfar villu Chriss sem ýtti auk þess Biyombo.

Biyombo fór af vellinum í gegnum rétt göng á leið sinni inn í búningsklefa heimamanna en Chriss, sem gjörþekkir staðinn eftir að hafa spilað með Phoenix 2016-18, ákvað að hlaupa á eftir honum í gegnum sömu göng. Hann átti að fara í gegnum göng hinu megin á vellinum.

Gæslumenn hlupu strax á eftir Chriss og sáu til þess að ekki kæmi til neinna frekari átaka, eins og sjá má.

Miami Heat vann einnig öruggan sigur gegn Philadelphia 76ers, 120-85, og komst í 3-2. Miami, með DJ Khaled í stuði á fremsta áhorfendabekk, hefur unnið alla sex leiki sína í úrslitakeppninni til þessa en næsti leikur er í Philadelphia annað kvöld.

Jimmy Butler skoraði 23 stig fyrir Miami og Max Strus skoraði 19 auk þess að taka 10 fráköst.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.