Um­fjöllun, við­töl og myndir: Valur - Tinda­­stóll 80-79 | Ein­vígið um titilinn hófst á há­­spennu­­leik

Hjörvar Ólafsson skrifar
Kristófer var frábær í kvöld.
Kristófer var frábær í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Valur er komið í 1-0 gegn Tindastól í baráttunni um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta. Fyrsti leikurinn fór fram á Hlíðarenda í kvöld og hafði Valur betur í háspennuleik, lokatölur 80-79.

Það var vel mætt í kvöld.Vísir/Bára Dröfn

Baráttan og sterkur varnarleikur var í fyrirrúmi þegar liðin öttu kappi í kvöld og kom það örlítið niður af fagurfræði körfuboltans. Það vantaði hins vegar ekki upp á skemmtanagildi, stemminguna í húsinu og spennuna. 

Valsmenn voru skrefi á undan lungann úr leiknum en náðu aldrei að slíta Stólana langt frá sér. Pavel Ermolinski byrjaði seinni hálfleikinn með tveimur þriggja stiga körfum með skömmu millibili og Valur komst átta stigum yfir.  

Þriggja stiga skotnýting Tindastóls var slök framan af leik en það voru svo þriggja stiga körfur frá Taiwo Hassan Badmus og fleirum sem héldu Stólunum inni í leiknum í þriðja leikhluta. 

Liðin skiptust svo á að hafa forystuna í fjórða leikhluta en að lokum var það Valur sem fór með sigur af hólmi eftir háspennu þar sem lokasókn Tindastóls rann út í sandinn. 

Valsmenn fagna í leikslok.Vísir/Bára Dröfn

Finnur Freyr: Þessir leikir munu einkennast af baráttu

Finnur Freyr, þjálfari Vals.Vísir/Bára Dröfn

„Það var hart barist í þessum leik eins og við var að búast. Við náðum að spila sterka vörn sem var lykillinn að þessum sigri. Fyrst og fremst er ég bara mjög ánægður með að vinna þrátt fyrir að það sé mjög margt sem við getum gert betur," sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, sáttur í leikslok. 

„Nú er það bara endurheimt, safna orku og freista þess að ná í sigur á Sauðárkróki á mánudaginn. Þetta verður svona áfram held ég. Mikilir baráttuleikir þar sem varnarleikurinn verður í hávegum hafður," sagði Finnur Freyr enn fremur. 

Baldur Þór: Eitt skot til eða frá

Baldur Þór, þjálfari Tindastóls.Vísir/Bára Dröfn

„Það er svekkjandi að hafa tapað en þetta var bara eitt skot til eða frá þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur þrátt fyrir tapið. Ef við hefðum sett niður eitt skotanna í lokasókninni þá værum við að fagna og allt væri í blóma. Það er stutt á milli í þessu," sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls. 

„Við hefðum getað gert betur í sóknarleiknum og skotnýtingin var ekki nógu góð. Það verður hins vegar að taka inn í myndina að við erum að spila á móti mjög góðu varnarliði sem erfitt er að eiga við. Nú leggjumst við yfir okkar leik og jöfnum metin á Króknum á mánudaginn," sagði Baldur Þór um framhaldið. 

Af hverju vann Valur?

Það var í raun afar lítið sem skildi liðin að í þessum leik. Valur tók fleiri fráköst og náði að spila ögn betri vörn. Annað var það gamli góði herslumunurinn sem gerði það að verkum að Valur vann. 

Hverjir stóðu upp úr?

Kristófer Acox skoraði 19 stig, tók 16 fráköst þar að auki og spilaði feykilega góða vörn. Hjá Tindastóli var Taiwo Hassan Badmus öflugastur en auk þess að skora 25 stig reif hann niður átta fráköst og varði tvö skot. 

Kristófer var frábær í kvöld.Vísir/Bára Dröfn
Taiwo Hassan Badmus var sömuleiðis magnaður.Vísir/Bára Dröfn

Hvað gerist næst?

Liðin mætast í öðrum leik einvígisins í Síkinu á Sauðárkróki á mánudaginn kemur. Hafa þarf betur í þremur leikjum til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. 

Myndir

Stólarnir mættu gíraðir.Vísir/Bára Dröfn
Sigtryggur Arnar skýtur boltanum.Vísir/Bára Dröfn
Pablo Cesar Bertone á fleygiferð.Vísir/Bára Dröfn
Kári Jónsson gegn Javon Anthony Bess.Vísir/Bára Dröfn
Kári Jónsson og Sigtryggur Arnar í baráttunni.Vísir/Bára Dröfn
Kristófer Acox að leik loknum.Vísir/Bára Dröfn
Pavel var drjúgur að venju.Vísir/Bára Dröfn
Pétur Rúnar Birgisson gegn Kára.Vísir/Bára Dröfn
Taiwo Badmus flýgur að körfunni.Vísir/Bára Dröfn
Sigurður Gunnar Þorsteinsson fékk tækifæri til að vinna leikinn.Vísir/Bára Dröfn
Valsmenn fagna í leikslok.Vísir/Bára Dröfn


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira