Körfubolti

Fær ekki að dæma því hann neitar að raka af sér skeggið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benjamin Barth má ekki dæma í sterkustu Evrópukeppninni í körfubolta því hann er skeggjaður. Hann var ekki byrjaður að safna þegar þessi mynd var tekin.
Benjamin Barth má ekki dæma í sterkustu Evrópukeppninni í körfubolta því hann er skeggjaður. Hann var ekki byrjaður að safna þegar þessi mynd var tekin. getty/Mathias Renner

Þjóðverjinn Benjamin Barth hefur ekki dæmt í EuroLeague, sterkustu Evrópukeppninni í körfubolta, frá síðasta hausti. Ástæðan er æði sérstök.

Barth neitar nefnilega að raka af sér skeggið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. „Richard Stokes [yfirmaður dómaramála hjá EuroLeague] sagði mér að þjálfarar og stjórnendur væru ekki hrifnir af skeggi og myndu kvarta yfir því,“ sagði Barth við þýska fjölmiðla.

„Ég skil ekki hvað þetta snýst um. Hverju breytir það hvort ég raka mig eða ekki. Þetta er mismunun. Eins mikið og ég vil dæma í EuroLeague get ég ekki samþykkt þetta. Við verðum að sjá til hvort sambandið breyti afstöðu sinni. En það er mikilvægt að almenningur sé meðvitaður um þetta,“ bætti Þjóðverjinn við.

Barth, sem er 43 ára, hefur dæmt í þýsku úrvalsdeildinni síðan 2003 og verið alþjóðlegur dómari síðan 2005.

Uppfært 12:50

EuroLeague hefur viðurkennt að hafa gert mistök í máli Barths og hefur beðið hann afsökunar. Barth samþykkti afsökunarbeiðnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×