Erlent

Engin þjóðaratkvæðagreiðsla um NATO-aðild í Svíþjóð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Magdalena Andersson er forsætisráðherra Svíþjóðar.
Magdalena Andersson er forsætisráðherra Svíþjóðar. EPA-EFE/JULIEN WARNAND

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir ekki verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort ríkið eigi að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) eða ekki.

„Ég held að þetta sé ekki mál sem henti þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Andersson við blaðamenn í Svíþjóð í gær.

Sænsk yfirvöld hafa að undanförnu vegið og metið kosti og galla þess að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Aðildarumsókn hefur hingað til ekki verið á dagskrá í sænskum stjórnmálum en innrás Rússa í Úkraínu hefur ýtt Svíum og Finnum, einu norrænu þjóðunum sem ekki eiga aðild að NATO, í átt að aðildarumsókn.

Greint hefur verið frá því að Finnar og Svíar íhugi sterklega að senda inn umsókn á sama tíma á næstunni, mögulega strax í næsta mánuði. Hvorugt ríki hefur þó tekið endanlega ákvörðun um aðildarumsókn.

Ólíklegt er þó að almennir borgarar í Svíþjóð fái að greiða atkvæði um mögulega inngöngu.

„Það fylgir þessu ferli gríðarlega mikið af trúnaðarupplýsingum um þjóðaröryggi sem þýðir að ekki er hægt að hafa almenna umræðu um mikilvæga þætti sem tengjast umsókn eða ræða allar staðreyndir málsins,“ sagði Andersson.

Flokkur Andersson ein helsta fyrirstaðan

Það er sænska þingið sem mun taka ákvörðun um mögulega aðild. Þar er ein helsta fyrirstaðan flokkur Andersson, sósíaldemókratar, sem hafa sögulega séð verið mótfallnir NATO-aðild. Innan flokksins er verið að skoða hvort breyta eigi um stefnu í þessum málum.

Nýleg skoðanakönnun sem framkvæmd var í síðustu viku sýnir að 57 prósent Svía eru hlynntir inngöngu í NATO. Stuðningurinn fer vaxandi en 51 prósent sögðust vera hlynntir inngöngu í síðasta mánuði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.