Innlent

Ferða­þyrstir Ís­lendingar nenna ekki heim

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Venju samkvæmt sækja fjölmargir Íslendingar í sólina á Kanaríeyjum.
Venju samkvæmt sækja fjölmargir Íslendingar í sólina á Kanaríeyjum. getty

Isavia gerir ráð fyrir sex til sjö hundruð komum og brottförum á Keflavíkurflugvelli yfir páskana, frá síðasta laugardegi til annars í páskum. Þetta er margfalt á við það sem var í fyrra þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði en þá voru komur og brottfarir um eitt hundrað um páskana.

Vegna þessa fylltust til að mynda stæðin við Keflavíkurflugvöll í dag. Samkvæmt upplýsingum frá íslensku flugfélögunum er sólin vinsæl auk borgarferða og er þétt bókað í flest flugin um páskana. Einnig virðist sem mörgum sem komnir eru út líði vel því þeir eru sumir nú þegar hverjir búnir að framlengja ferðir sínar um nokkra daga.

Einnig er töluvert um að erlendir ferðamenn séu að koma hingað til lands um páskana.

Óvenjulítil umferð

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að umferðin á leið frá höfuðborgarsvæðinu sé nú töluvert minni rétt fyrir páska en undanfarin ár. Hann bætir við að töluverð umferð hafi þó verið í gær og hún verið nokkuð hröð. Til að mynda hafi fimmtán ökumenn verið teknir fyrir of hraðan akstur á Vesturlandsvegi.

„Svo það virðist vera að þeir sem hafi verið að fara út úr bænum hafi tekið forskot á sæluna og farið aðeins á undan,“ sagði Árni í kvöldfréttum Stöðvar 2. Mjög gott færi sé víða um land, veðurspáin ágæt og það stefni í góða páska.

Hann segir að fólk sé mikið að fara norður, á Vestfirði og þá sé mikil umferð á Suðurlandsvegi þar sem fólk geri sér leið í sumarhúsabyggðir. Þá hafi ekki síst verið töluverð umferð á Reykjanesbrautinni í átt að Keflavík.

„Það er hitinn sem heillar og ég skil það vel,“ segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×