Sport

Serena íhugar endurkomu í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Serena Williams hefur ekki keppt á Wimbledon-mótinu síðasta sumar.
Serena Williams hefur ekki keppt á Wimbledon-mótinu síðasta sumar. Getty Images

Serena Williams hefur gefið í skyn að hún gæti keppt á Wimbledon-mótinu í tennis hefst þann 27. júní. Serena hefur ekki keppt síðan síðasta sumar.

Hin fertuga Serena hefur ekki enn gefið út að hún hafi lagt spaðann á hilluna þó svo hún hafi ekki keppt síðan hún þurfti að hætta keppni vegna meiðsla á Wimbledon á síðasta ári. Nú hefur þessi magnaða íþróttakona gefið til kynna að hún gæti snúið aftur á sama stað og ferillinn virtist vera á enda.

Serena hefur alls sigrað 23 meistaramót á sínum ferli og vantar aðeins einn sigur til að jafna met Margaret Court en engin/n hefur unnið fleiri meistaramót í tennis. Hún þurfti að hætta leik á Wimbledon síðasta sumar og missti í kjölfarið af Opna bandaríska meistaramótinu. Þá ákvað hún að taka ekki þátt á Ólympíuleikunum í Tókýó og hún taldi sig ekki í nægilega góðu formi til að keppa á Opna ástralska í upphafi árs.

Hún ræddi nýverið við Aaron Rodgers, hinn 38 ára gamla leikstjórnanda Green Bay Packers í NFL-deildinni, og sagði hann Serenu að taka slaginn.

„Við vorum að ræða endurkomuna mína. Hann gaf mér mikið sjálfstraust og sagði mér að ég ætti að gera mig klára fyrir Wimbledon.“

Williams hefur ekki unnið stórmót í tennis síðan 2017. Síðan þá hefur hún tapað í úrslitum Opna bandaríska 2018 og Wimbledon ári síðar. Hver veit nema hún komist alla leið í úrslit Wimbledon-mótsins í ár og jafni loks met Court.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×