Körfubolti

Martin og félagar enduðu riðlakeppnina á stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia unnu stórsigur í kvöld.
Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia unnu stórsigur í kvöld. Mike Kireev/NurPhoto via Getty Images

Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia unnu afar öruggan 32 stiga sigur er liðið tók á móti þýska liðinu Ulm í lokaumferð riðlakeppni Eurocup í körfubolta, 103-71.

Strax í fyrsta leikhluta var ljóst í hvað stefndi og eftir um fimm mínútna leik var staðan orðin 17-4, heimamönnum í Valencia í vil. Liðið fór með 13 stiga forskot inn í annan leikhlutann, en þegar flautað var til hálfleiks var staðan orðin 52-30.

Martin og félagar gáfu ekkert eftir í síðari hálfleik og liðið náði mest 39 stiga forskoti í þriðja leikhluta. Þeir héldu svo forskoti sínu vel í lokaleikhlutanum og unnu að lokum öruggan 32 stiga sigur, 103-71.

Martin skoraði átta stig fyrir Valencia, tók eitt frákast og gaf átta stoðsendingar á liðsfélaga sína. Liðið situr nú á toppi B-riðils með 12 sigra í 18 leikjum, en Gran Canaria leikur sinn seinasta leik á morgun og getur þá endurheimt toppsætið. Ulm endaði riðilinn hins vegar í áttunda sæti og rétt slapp því í 16-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×