Körfubolti

Hafa mæst sex sinnum áður og liðið sem vinnur leik eitt hefur alltaf komist áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javon Bess verður í stóru hlutverki hjá Tindastólsmönnum í þessari úrslitakeppni.
Javon Bess verður í stóru hlutverki hjá Tindastólsmönnum í þessari úrslitakeppni. Vísir/Hulda Margrét

Tindastóll og Keflavík hefja einvígi sitt í úrslitakeppni Subway-deildar karla í körfubolta í kvöld og sagan segir að leikur kvöldsins skipti gríðarlega miklu máli.

Þetta er í sjöunda skiptið sem þessi félög mætast í sögu úrslitakeppninnar og Keflvíkingar hafa fagnað sigri í fjórum af sex skiptum.

Það lið sem vinnur fyrsta leikinn er aftur á móti með hundrað prósent sigurhlutfall í einvíginu. Tveir af þessum sigrum í fyrsta leik hafa komið á útivelli.

Liðin eru að mætast annað árið í röð því Keflavík vann Tindastól 3-0 í átta liða úrslitunum í fyrra, vann þá 8 stiga, 12 stiga og 4 stiga sigur í leikjunum þremur.

Liðin mættust fyrst í undanúrslitunum 2001 og hafði Tindastóll þá betur eftir sigur í oddaleik. Axel Kárason var í liði Stólanna í því einvígi en hann er enn á ferðinni með liðinu.

Þetta er jafnframt í þriðja sinn sem einvígi félaganna byrjar á Sauðárkróki. Tindastóll vann fyrsta leikinn í undanúrslitunum 2001 og einvígið síðan 3-2 og í átta liða úrslitunum 2017 þá vann Keflavík fyrsta leikinn á Króknum og einvígið síðan 3-1.

Báðir leikir dagsins verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsending frá leik Tindastóls og Keflavíkur hefst klukkan 18.95 á Stöð 2 Sport og strax á eftir verður leikur Vals og Stjörnunnar sýndur á sömu rás.

  • Einvígi Tindastóls og Keflavíkur í sögu úrslitakeppninnar:
  • Undanúslit 2001
  • Fyrsti leikur: Tindastóll-Keflavík 109-87
  • Niðurstaða: Tindastóll vann einvígið 3-2
  • Átta liða úrslit 2004
  • Fyrsti leikur: Keflavík-Tindastóll 98-81
  • Niðurstaða: Keflavík vann einvígið 2-1
  • Átta liða úrslit 2010
  • Fyrsti leikur: Keflavík-Tindastóll 94-75
  • Niðurstaða: Keflavík vann einvígið 2-1
  • Átta liða úrslit 2016
  • Fyrsti leikur: Keflavík-Tindastóll 90-100
  • Niðurstaða: Tindastóll vann einvígið 3-1
  • Átta liða úrslit 2017
  • Fyrsti leikur: Tindastóll-Keflavík 102-110
  • Niðurstaða: Keflavík vann einvígið 3-1
  • Átta liða úrslit 2021
  • Fyrsti leikur: Keflavík-Tindastóll 79-71
  • Niðurstaða: Keflavík vann einvígið 3-0

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×