Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 58-61 | Bikarmeistararnir tóku forystuna gegn Íslandsmeisturunum

Andri Már Eggertsson skrifar
Valur og Haukar mætast í kvöld.
Valur og Haukar mætast í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Haukar unnu þriggja stiga sigur á Val 58-61 og tóku þar með forystuna í undanúrslitum Subway-deildar kvenna í einvígnu gegn Val. 

Það var mikil eftirvænting að sjá ríkjandi Íslandsmeistara taka á móti ríkjandi bikarmeisturum í undanúrslitum Subway-deildar kvenna. Bæði lið fóru hægt af stað en gestirnir frá Hafnarfirði byrjuðu leikinn betur.

Haukar fundu leiðir í gegnum vörn Vals og voru ellefu stigum yfir 8-19 þegar tæplega tvær mínútur voru eftir. Valur endaði hins vegar fyrsta leikhluta á að gera fjögur stig í röð og mátti sjá að heimakonur voru að finna sinn leik betur.

Eftir góðan endi á fyrsta leikhluta hélt Valur áfram að keyra á Hauka og náði Valur 8-1 áhlaupi. Eftir það var annar leikhluti afar jafn og fóru bæði lið að skiptast á að taka forystuna.

Hildur Björg Kjartansdóttir, leikmaður Vals, hefur lítið getað spilað með liðinu vegna meiðsla. Hildur var allt í öllu hjá Val í fyrri hálfleik og gerði síðustu körfuna sem skilaði Val tveggja stiga forskoti í hálfleik 38-36.

Góður varnarleikur einkenndi bæði lið í þriðja leikhluta þar sem það var ekki mikið skorað. Haukar unnu þriðja leikhluta með einu stigi 9-10. Bikarmeistararnir náðu að gefa aðeins í undir lok þriðja leikhluta sem skilaði fjórum stigum í röð.

Fjórði leikhluti var í járnum alveg þar til á síðustu mínútunni. Tinna Guðrún Alexandersdóttir setti afar mikilvægan þrist niður fyrir gestina þegar innan við tvær mínútur voru eftir. 

Haukar unnu að lokum þriggja stiga sigur 58-61. 

Af hverju unnu Haukar?

Sóknarfráköst Hauka í fjórða leikhluta reyndustu afar mikilvæg. Haukar hittu afar illa en fengu trekk í trekk annað tækifæri. 

Það var ekki mikið skorað í seinni hálfleik og má hrósa vörn Hauka sem hélt Val í aðeins tuttugu stigum í seinni hálfleik.

Hverjar stóðu upp úr?

Eva Margrét Kristjánsdóttir endaði með tvöfalda tvennu. Hún var stigahæst hjá Haukum með 19 stig og tók einnig 10 fráköst og þar af fimm sóknarfráköst. 

Heiden Palmer gerði 17 stig, tók 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Skotnýting beggja liða var ekki góð en skotnýting Vals var verri. Valur tók 70 skot í leiknum og hitti aðeins úr 22 sem er 31 prósent nýting. 

Hvað gerist næst?

Á fimmtudaginn mætast liðin aftur í Ólafssal klukkan 18:15 og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. 

Ólafur: Gátum ekki keypt okkur körfu í seinni hálfleik

Ólafur Jónas var svekktur eftir tap gegn HaukumVísir/Bára Dröfn

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var svekktur með tap í fyrsta leik gegn Haukum í undanúrslitum.

„Ég er svekktastur með auðveldu færin sem við klikkuðum á, við fórum illa með opin skot og sniðskot. Við gátum ekki keypt okkur körfu í seinni hálfleik,“ sagði Ólafur Jónas svekktur en Valur gerði aðeins tuttugu stig í seinni hálfleik.

Sóknarleikur Vals í seinni hálfleik var afar slakur og fannst Ólafi ýmislegt spila inn í.

„Haukar spiluðu góða vörn en við hentum boltanum líka yfir hringinn trekk í trekk og fengum opin skot sem við klikkuðum á. Svona er úrslitakeppnin þetta er gaman og verðum við að laga þessa hluti.“

Haukar fóru illa með Val undir körfunni í fjórða leikhluta þar sem gestirnir tóku haug af sóknarfráköstum á afar mikilvægum augnablikum. 

„Ég er mjög svekktur með öll þessi sóknarfráköst sem Haukar tóku. Þrátt fyrir að Haukar hafi aðeins tekið einu sóknarfrákasti meira en við þá komu þeirra sóknarfráköst á afar mikilvægum tíma í leiknum sem reyndist okkur afar dýrt,“ sagði Ólafur að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira