Innlent

Tvö prósent Íslands er nú þakið skógi og kjarri

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Nú eru tvö prósent af Íslandi þakin skógi og kjarri en þessi tala hefur verið eitt prósent fram að þessu. Eftir tuttugu ár er gert ráð fyrri að talan verði komin upp í 2,6 prósent.
Nú eru tvö prósent af Íslandi þakin skógi og kjarri en þessi tala hefur verið eitt prósent fram að þessu. Eftir tuttugu ár er gert ráð fyrri að talan verði komin upp í 2,6 prósent. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Skógræktarfólk kætist þessa dagana því að nú eru tvö prósent af Íslandi þakin skógi og kjarri en þessi tala hefur verið eitt prósent fram að þessu. Eftir tuttugu ár er gert ráð fyrri að talan verði komin upp í 2,6 prósent.

Um 150 manns sóttu í vikunni tveggja daga ráðstefnu Skógræktarinnar, sem bar yfirskriftina „Skógrækt 2030 – Ábyrg framtíð“ og var haldin á Hótel Geysi í Haukadal í Bláskógabyggð. Fjölmörg áhugaverð erindi voru flutt og farið í skoðunarferð á Laugarvatn. Frétt þingsins er þó þessi.

„Já, það eru tíðindi, við erum núna komin upp fyrir tvö prósent af landinu, sem er þá vaxið af skógi og kjarri en var áður í kringum eitt prósent, þannig að það margt að gerast. Þetta er stór frétt, það er alltaf áfangi þegar maður kemst yfir eitt prósent í viðbót,“ segir Arnór Snorrason skógfræðingur á rannsóknarstöð Skógræktar á Mógilsá.

En hverju þakkar Arnór þessa aukningu?

„Það er auðvitað þessi aukna skógrækt, sem hefur verið í gangi á Íslandi. Við vorum með eitthvað um sjö þúsund hektara af ræktuðum skógi á Íslandi 1990 en þeir eru orðnir núna fjörutíu og fimm þúsund. Þetta er bara það mikla skógræktarátak, sem hefur farið fram í landinu.“

Mjög góð þátttaka var á ráðstefnu Skógræktarinnar á Hótel Geysi í Haukadal í vikunni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Arnþór segir líka að náttúrulegu birkiskógarnir séu að bæta við sig og að það séu ný tíðindi því fram að því hafa þeir verið að gefa heldur eftir alveg frá landnámi.

Arnór segir mikla ánægju með hvað skógrækt gengur vel á Íslandi og hvað það er mikill áhugi á ræktuninni út um allt land.

„Já, við erum mjög ánægðir og við viljum auðvitað halda áfram. Það er bara að rækta meiri skóg, það er mottóið,“ segir hann kampakátur.

Arnór Snorrason skógfræðingur á rannsóknarstöð Skógræktar á Mógilsá.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×