Skoðun

Elsusjóður – menntasjóður endókvenna

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar

Samtök um endómetríósu (legslímuvilla) standa nú fyrir hinni árlegu fræðsluviku um sjúkdóminn. Í þetta sinn er vakin sérstök athygli á áhrifum endómetríósis á atvinnuþátttöku kvenna. Þau áhrif eru ekki minni á skólagöngu ungra stúlkna, kvenna og annarra einstaklinga sem þjást af endó. Alvarleg endómetríósa hefur gríðarlega neikvæð áhrif á lífsgæði og virkni þeirra sem hana fá. Það er enn alvarlegra í ljósi þess að það tekur langan tíma að greina sjúkdóminn, 5 til 7 ár, og þó greining fáist er algerlega óvíst að endókonur geti fengið lækningu með skurðaðgerð og/eða lyfjagjöf.

Lífshlaup Elsu Guðmundsdóttur var markað af glímunni við endómetríósis. Hún ritaði einu sinni um reynslu sína og lýsti lífi sínu sem slitróttu en glíman við endó hafði mikil áhrif á tækifæri hennar til náms og þátttöku á vinnumarkaði. Í grein árið 2014 skrifaði Elsa, m.a.: 

,,Drífa sig, fara í vinnuna, brosa, vera hress. Taka meiri verkjalyf, loka skrifstofunni á meðan verstu verkirnir ganga yfir, leggjast fram á borðið, lúta líkamanum og bíða. Nú bankar einhver, rísa upp og brosa, ekki láta á sjá, ekki taka of marga veikindadaga, verð að standa mig, klára verkefnið, klára skýrsluna, bíta á jaxlinn og vinna í gegnum verkina. Alltaf veik, „hún er alltaf veik“, heyrist pískrað, líkaminn veikburða, veigalítill, „drífðu þig í líkamsrækt“, „farðu í göngutúra, það er svo hressandi“, sem í lauslegri þýðingu þýðir; hættu að væla, vertu ekki svona mikill aumingi, rífðu þig upp úr þessum vesaldóm.”

Elsa féll frá árið 2019. Í hennar nafni hefur Elsusjóður - menntasjóður endókvenna verið stofnaður. Stofnframlag sjóðsins er dánargjöf hennar og stofnandi sjóðsins er Björgólfur Thorsteinsson eftirlifandi maki Elsu. Tilgangur Elsusjóðs er að veita námsstyrki til háskólanema sem eru með endómetríósu, til að draga úr hindrunum þeirra í námi vegna sjúkdómsins. Mig langar að nota þetta tækifæri og hvetja þau sem eru aflögufær, fólk og fyrirtæki, til að leggja þessu mikilvæga málefni lið.

Samtök um endómetríósu, stofnandi sjóðsins og stjórnarkonur vona að Elsusjóður haldi minningu Elsu Guðmundsdóttur á lofti og bæti um leið lífsgæði háskólanema sem glíma við þennan illvíga sjúkdóm.

Höfundur situr í stjórn Elsusjóðs – menntasjóðs endókvennaAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sundtískan

Anna Gunndís Guðmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×