Sport

Baldvin komst í úrslit á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Baldvin Þór Magnússon er Íslandsmethafi í 3.000 metra hlaupi og hefur staðið sig vel í Bandaríkjunum þar sem hann hleypur og sinnir háskólanámi.
Baldvin Þór Magnússon er Íslandsmethafi í 3.000 metra hlaupi og hefur staðið sig vel í Bandaríkjunum þar sem hann hleypur og sinnir háskólanámi. FRÍ

Baldvin Þór Magnússon gerði sér lítið fyrir og komst í úrslit í dag þegar hann keppti í undanriðli í 3.000 metra hlaupi á HM innanhúss í Belgrad í Serbíu. Þetta er hans fyrsta heimsmeistaramót.

Baldvin endaði í 6. sæti af 11 keppendum í sínum riðli og á endanum reyndist það duga til að komast í úrslitin, eftir að keppni í hinum tveimur riðlunum lauk. Tími Baldvins reyndist sá sjötti besti alls, þvert á riðla, hjá 33 keppendum.

Baldvin hljóp á 7:49,34 mínútum og var nokkuð nálægt Íslandsmeti sínu þrátt fyrir taktískt hlaup. Met hans frá því í febrúar er 7:47,51.

Tveir keppinauta Baldvins duttu snemma í hlaupinu og hann var heppinn að sleppa framhjá þeim, en þeir héldu þó áfram og nálguðust hópinn fljótt.

Baldvin var í fjórða sæti fyrstu hringina en færðist aftar, í 7. sæti, þegar hraðinn í hlaupinu jókst, þó að hann héldi vel í við fremstu menn.

Baldvin vann sig upp í 5. sæti fyrir lokahringinn en rétt missti Svisslendinginn Jonas Raess fram úr sér við endalínuna og varð 3/100 úr sekúndu á eftir honum.

Það kom þó ekki að sök því bæði Baldvin og Raess komust í úrslitin.

Úrslitin á sunnudaginn

Keppt var í þremur riðlum og komast fjórir fremstu í hverjum riðli beint áfram í úrslit, sem og þeir þrír sem náðu bestum tíma þar á eftir, þvert á riðla. Samtals komust því 15 keppendur áfram í úrslitin sem fram fara á sunnudaginn.

Girma Lamecha frá Eþíópíu vann riðil Baldvins á 7:46,21 mínútum og Bandaríkjamaðurinn Dillon Maggard tók fjórða og síðasta örugga sætið á 7:48,58 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×