Körfubolti

Sverrir Þór: „Við þurfum að fínpússa hluti“

Atli Arason skrifar
Sverrir Þór Sverrirsson, þjálfari Grindvíkinga, var súr eftir tap sinna manna í kvöld.
Sverrir Þór Sverrirsson, þjálfari Grindvíkinga, var súr eftir tap sinna manna í kvöld. Vísir/Vilhelm

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, var sár og svekktur eftir að hafa misst niður nánast unnin leik gegn Stjörnunni í Garðabæ.

„Ég er drullu svekktur, við vorum ansi nálægt því að klára þetta undir lok venjulegs leiktíma,“ sagði Sverrir Þór í viðtali við Vísi eftir leik.

Grindavík var mun betra liðið í fyrri hálfleik og gestirnir voru 20 stigum yfir í hálfleiknum, 29-49. Stjarnan kom svo til baka í síðari hálfleik og jafnaði leikinn með síðustu körfu fjórða leikhluta eftir að Grindavík hafði verið með forskotið alveg frá fyrstu mínútu.

„Þeir komu sterkir inn í seinni hálfleikinn. Við gáfum þá helvíti mikið eftir sem var að sjálfsögðu ekki planið. Við urðum litlir í okkur og bökkuðum frá öllu, fyrstu fimm í seinni skoruðum við bara einn þrist. Svo var þetta bara orðið stál í stál undir restina, þá er þetta bara spurning um heppni. Þá þarf maður að setja stóru skotin og það voru þeir sem settu stóru skotin í framlengingunni.“

Naor Sharon fór út af leikvelli með fimm villur þegar lítið var eftir af fjórða leikhluta. Grindvíkingar söknuðu aðal leikstjórnanda síns í framlengingunni.

„Hann var að stýra leiknum frábærlega og halda öllum inn í leiknum hjá okkur. Við vorum nálægt því að klára þetta án hans en það gekk ekki eftir. Við getum samt tekið fullt jákvætt úr þessu.“

Framundan er smá hlé á deildinni vegna bikarkeppninnar og Sverrir Þór ætlar sér að nýta það hlé vel á æfingasvæðinu.

„Það er tveggja frí núna og svo eru þrír hörku leikir eftir. Við þurfum að fínpússa hluti og stilla okkur betur saman og koma klárir í síðustu þrjá í deild. Við munum nýta þennan tíma mjög vel í að undirbúa okkur fyrir lokakaflann,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×