Handbolti

Hrósaði Val fyrir að fara í 7 á 6: „Gerðu það til að höggva á hnútinn“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var hart barist í Safamýri.
Það var hart barist í Safamýri. Vísir/Hulda Margrét

Farið var yfir leik Fram og Vals í Olís-deild karla í handbolta í síðasta þætti Seinni bylgjunnar. Jóhann Gunnar Einarsson, einn af sérfræðingum þáttarins, hrósaði Snorra Steini Guðjónssyni og Valsliði hans sérstaklega.

„Fram var að gera mjög einfalda hluti en gera þá mjög vel. Þetta var mjög óvanalegt hjá vörn Vals. Þeir (Fram) spila þannig að þeir vilja fá besta leikmanninn með sem mest pláss. Einföld stöðuskipti og þeir voru að fá fullt af færum, mörkum, vítum og klúðrum,“ sagði Jóhann Gunnar um sóknarleik Fram í nágrannaslagnum gegn Val.

„Síðan fann Valur lausnina en þeir lenda samt í smá veseni. Þeir þurfa að fara í 7 á 6, mjög óvanalegt að Valur þurfi að gera það. Þeir gerðu það til að höggva á hnútinn, þeir voru í smá basli en þeir eru ekki lengi í þessu en mér fannst vel gert hjá Snorra (Stein Guðjónssyni, þjálfara Vals). Þeir gera þetta til að létta á.“

„Þegar maður reynir að skoða taktík hjá Val þá er það erfitt því þeir eru svo léttleikandi. Þeir eru góðir að halda boltanum gangandi og lifandi, láta ekki brjóta á sér. Frábær sóknarleikur,“ bætti Jóhann Gunnar við áður en Stefán Árni Pálsson, þáttastjórnandi átti lokaorðið.

„Með Valsliðið, mér finnst þeir alltaf finna lausnir. Kemur alltaf ein aukasending og ein aukasending þangað til þeir eru komnir í gegn.“

Umræðu Seinni bylgjunnar um leik Fram og Vals má sjá hér að neðan en Theódór Ingi Pálmason var með þeim að þessu sinni.

Klippa: Jóhann Gunnar fer yfir leik Fram og Vals

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×