Umfjöllun og viðtöl: Fram 25-32 Valur | Valur tók Reykjavíkurslaginn

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Úr leiknum í kvöld
Úr leiknum í kvöld Hulda Margrét

Í kvöld fór fram frestaður leikur úr áttundu umferð Olís-deildar karla í handbolta á milli Fram og Vals í Framhúsinu. Endaði þessum Reykjavíkurslag með sjö marka sigri Vals, lokatölur 25-32.

Bæði lið töpuðu síðasta leik sínum í Olís-deildinni fyrir viðureignina í kvöld, Fram tapaði gegn HK og ÍBV sigraði Val út í eyjum. Því var mikilvægt fyrir Fram og Val að ná í sigur í leiknum í kvöld til að halda sér inn í þeirri baráttu sem þau standa í á mismunandi stað í Olís-deildinni. Fram er að keppast um sæti í úrslitakeppninni annars vegar og Valsmenn stefna á deildarmeistaratitilinn hins vegar.

Valsmenn fóru strax í fimmta gír í upphafi leiks og keyrðu á Framara við hvert tækifæri og Björgvin Páll í stuði í marki Vals. Staðan 4-10 Val í vil eftir fimmtán mínútna leik. Þá hófst ótrúlegur kafli hjá Fram. Einhver ótrúlegur eldmóður kviknaði í liði Framara, vörnin small saman, Lárus Helgi fór að verja vel í markinu og bekkurinn mjög líflegur hjá heimamönnum. Hægt og bítandi nálguðust heimamenn Val og jöfnuðu loks leikinn þegar um mínúta var eftir af fyrri hálfleik. Rógvi Dal Christiansen kom svo sínum mönnum í Fram yfir með loka marki fyrri hálfleiksins af línunni. Staðan 14-13 í hálfleik.

Liðin héldu í hvort annað á fyrstu mínútum seinni hálfleiks. Staðan 19-19 eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Eftir það kom slæmur kafli hjá Fram. Töpuðu þeir boltanum þrjár sóknir í röð og Valur refsaði fyrir það. Valur komnir með þriggja marka forystu, 20-23 staðan. Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals lét sína menn spila sjö á sex lungað úr seinni hálfleik sem hægt og bítandi braut niður Framarana sem voru orðnir mjög þreyttir síðasta korter leiksins. Valur kláraði leikinn svo nokkuð þægilega á síðasta korteri leiksins. Bæði Þorgils Jón Svölu Baldursson og Alexander Örn Júlíusson, leikmenn Vals fengu sína þriðju brottvísun í seinni hálfleik og þar með útilokun frá leiknum. Höfðu þær brottvísanir lítil áhrif á leik Vals.

Af hverju vann Valur?

Valur er með töluvert meiri breidd en Fram og gerði það sennilega útslagið í kvöld. Framarar voru orðnir frekar lúnir þegar mest á reyndi á meðan Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals rúllaði vel á sínu liði.

Hverjir stóðu upp úr?

Björgvin Páll Gústavsson var hrikalega öflugur í kvöld og var með rúma 43% vörslu, þar af þrjú varin víti.

Stiven Tobar Valencia var með 100 prósent nýtingu úr sínum sjö skotum, enn hann fékk úr nægu að moða þegar lið hans Valur spilað sjö gegn sex í sókn.

Hvað gekk illa?

Seinni hluti fyrri hálfleiksins gekk illa hjá Val, þar sem þeir glutruðu niður sex marka forystu. Skoruðu þeir aðeins þrjú mörk á síðasta korteri fyrri hálfleiksins.

Slæmur kafli um miðbik síðari hálfleiks hjá Fram fór þó með leikinn fyrir heimamenn. Margir tapaðir boltar á skömmum tíma sem oft á tíðum voru ansi klaufalegir.

Hvað gerist næst?

Framarar fá Víkinga í heimsókn næsta laugardag kl. 14:00. Valsmenn spila sama dag gegn KA í Origo höllinni kl. 16:00 og verður sá leikur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Báðir þessir leikir eru hluti af 16. umferð Olís-deildar karla.

„Mér fannst það virka vel hvað varðar að breyta takti leiksins“

Snorri Steinn GuðjónssonVísir/Hulda Margrét

„Við þurftum að hafa fyrir því en vorum fínir í dag. Byrjuðum leikinn vel og náðum góðu forskoti og Bjöggi (Björgvin Páll Gústavsson) að verja. Það var svona hlutir að tikka fyrir okkur, en svo kom svona kafli í leiknum þar sem var mikið um brottvísanir og mér fannst Fram nýta sér það betur á meðan við vorum klaufar. Lalli (Lárus Helgi Ólafsson) fer aðeins í gang í markinu, vítaköst og annað. Það gerir það að verkum að við missum leikinn aðeins frá okkur, en ekkert stór mál að vera einu marki undir í hálfleik. Við breytum aðeins um takt, förum í sjö á sex. Mér fannst það virka vel hvað varðar að breyta takti leiksins og við náðum líka að fylgja því eftir þegar við hættum í sjö á sex og við unnum bara svona fínan sigur.“

Snorra Steini Guðjónssyni, þjálfara Vals fannst lítið athugavert við þær brottvísanir sem Þorgils Jón Svölu Baldursson og Alexander Örn Júlíusson, leikmenn Vals fengu í kvöld.

„Eitthvað er eflaust rétt og annað ekki. Ég held að þetta hafi verið nokkuð fastur leikur og eflaust krefjandi að dæma hann.“

Valur mætir KA á laugardaginn í Origo höllinni.

„Mér finnst allavegana betra að koma inn í leiki eftir sigur. Alvöru leikur. Eftir brösuga byrjun virðast þeir (KA) vera búnir að finna góðan takt. Það verður erfiður leikur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira