Handbolti

Einar Jónsson: Vorum orðnir dálítið þreyttir

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Einar Jónsson, þjálfari Fram
Einar Jónsson, þjálfari Fram Hulda Margrét

Valur sigraði Fram í kvöld með sjö marka mun eftir að Framarar höfðu verið einu marki yfir í hálfleik. Lokatölur í Framhúsinu 25-32, eftir kaflaskiptan leik.

Einar Jónsson, þjálfari Fram var sáttur með frammistöðu sinna manna eftir strembinn leik gegn Valsmönnum.

„Mér fannst frammistaðan á köflum bara mjög góð. Við vorum að spila á móti frábæru liði. Mér fannst við á köflum sóknarlega og varnarlega góðir. Vorum að spila tiltölulega nýja vörn sem við höfum lítið æft, sem kostar mikið þrek en það voru kaflar þar sem við getum klárlega byggt á.“

Slæmur kafli um miðbik seinni hálfleiks hjá liði Fram hafði mikið að segja um loka niðurstöðu leiksins.

„Svo erum við að gera dýra feila, erum með átta tapaða bolta hér í seinni hálfleik sem er allt of mikið og er í raun og veru er það Valur sem að nær sínu forskoti á því hreinlega og það að við vorum orðnir dálítið þreyttir hérna um miðbik seinni hálfleiks. Það er kannski helst sá hluti sem svíður aðeins, en það er ýmislegt gott í þessu en fullt af hlutum sem við verðum að laga og við munum gera það.“

Það er stutt á milli leikja í Olís-deildinni þessa dagana. Næsti leikur Fram er á heimavelli á laugardaginn gegn Víkingi. Einar Jónsson, þjálfari Fram ætlar sér sigur í þeim leik.

„Við verðum ekki þreyttir á laugardaginn. Við vorum þreyttir í dag. Mér líst mjög vel á leikinn á laugardaginn og við munum mæta galvaskir í þann leik og við munum selja okkur dýrt. Við ætlum okkur og þurfum að vinna þann leik.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×