Körfubolti

Áttundi í röð hjá Boston

Sindri Sverrisson skrifar
Jayson Tatum var í ham í sigri Boston Celtics gegn Atlanta Hawks.
Jayson Tatum var í ham í sigri Boston Celtics gegn Atlanta Hawks. Getty/Maddie Malhotra

Boston Celtics halda fluginu áfram í NBA-deildinni í körfubolta en liðið vann sinn áttunda sigur í röð í gær með 105-95 sigri gegn Atlanta Hawks.

Jayson Tatum fór fyrir liði Boston og skoraði 38 stig og tók tíu fráköst. Boston hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum gegn Atlanta í vetur og var 55-45 undir í hálfleik í gær, auk þess sem Trae Young skoraði fyrstu körfu seinni hálfleiks.

Þá hrukku heimamenn hins vegar í gír og skoruðu tólf stig í röð, og þeir unnu þriðja leikhlutann raunar 42-23 og lögðu með því grunninn að sigrinum.

Young var stigahæstur Atlanta með 30 stig og átti tíu stoðsendingar þar að auki.

Eftir átta sigra í röð er Boston í sjötta sæti austurdeildarinnar, með 33 sigra og 25 töp, og laust við umspil fyrir úrslitakeppnina eins og staðan er núna. Atlanta er hins vegar í 10. sætinu með 26 sigra og 30 töp.

Í hinum leik gærdagsins unnu Minnesota Timberwolves 129-120 útisigur gegn Indiana Pacers.

Karl-Anthony Towns var í stóru hlutverki og skoraði 15 stig fyrir Minnesota og tók 13 fráköst. Anthony Edwards var stigahæstur með 37 stig. Hjá Indiana voru þeir Oshae Brissett og Tyrese Haliburton stigahæstir með 22 stig hvor.

Minnesota er í 7. sæti vesturdeildarinnar með 30 sigra og 27 töp en Indiana er langt frá sæti í úrslitakeppni með 19 sigra og 39 töp, í þrettánda og þar með þriðja neðsta sæti austurdeildarinnar.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×