Innlent

Allt á kafi í sandi í Vík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Allt á kafi í sandi.
Allt á kafi í sandi. Jakub Kaźmierczyk

Gríðarlegt sandfok varð við Vík í Mýrdal í óveðrinu sem gekk yfir landið í gær og í nótt með þeim afleiðingum að hluti bæjarins er á kafi í sandi.

„Það er auðvitað mjög drungalegt umhorfs, að keyra í bænum þegar ég fór þarna í morgun,“ segir Einar Freyr Elínarsson, oddviti Mýrdalshrepps í samtali við Vísi. Mbl.is greindi frá sandfokinu fyrr í dag.

Klippa: Allt á kafi í sandi í Vík

„Fólk á eftir að þurfa að hreinsa úr görðum og innkeyrslum og alls konar, svo bara bíðum við eftir alvöru mýrdælskri rigningu, sem að við erum nú vön hérna.“

Hún hjálpar?

„Hún hjálpar en við höfum ekki náð að meta það ennþá hvort og þá hversu mikið tjónið er af þessu,“ segir Einar Freyr. Megnið af sandinum er vestast og austast í bænum. Sandurinn hefur haft nokkur áhrif á þorpslífið, til að mynda er sundlaugin lokuð, enda allt fullt af sandi þar eins og meðfylgjandi myndir sýna.

Þetta er ekki snjór. Þetta er sandur.Jakub Kaźmierczyk

„Þetta er náttúrulega aftakaveður. Þetta er með mestu ölduhæð sem hefur sést, jafn vel frá 1990. Óvísindaleg ágiskun segir að það séu rúm fimmtán ár síðan við höfum séð svona mikinn sand fjúka inn í þorpið eins og gerðist í nótt,“ segir Einar Freyr.

Töluverður sjór flæddi einnig upp á land en svo virðist sem að sjóvarnargarðar hafi haldið í áhlaupinu.

„Það flæðir þarna sjór upp á land. Þar sem ekki eru neinar flóðvarnir. Það sem við kannski sjáum er að þær ráðstafanir sem við höfum gert í flóðvörnum, að þær eru að halda,“ segir Einar Freyr.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×