Bíó og sjónvarp

Bruce Willis fær sinn eigin flokk á Razzie-verðlaununum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Bruce Willis skrifaði sig í Razzie-sögubækurnar.
Bruce Willis skrifaði sig í Razzie-sögubækurnar. Getty/ Jim Spellman

Í gær var tilkynnt hvaða myndir eru tilnefndar til Razzie-verðlaunanna í ár. Á hátíðinni er kastljósinu beint að því versta í kvikmyndum. Verðlaunin eru afhent degi á undan Óskarnum, þar sem það besta fær alla athyglina.

Leikarinn Bruce Willis þykir hafa slegið öll met árið 2021 að mati Razzie-valnefndarinnar. Að þeirra mati lék hann í hvorki meira né minna en átta lélegum kvikmyndum á síðasta ári. Enginn leikari hefur áður nælt sér í átta tilnefningar í sama flokknum. 

Það var því ekkert annað í stöðunni en að útbúa nýjan flokk, bara fyrir lélegu frammistöðuna hans í aðalhlutverkum í kvikmyndum.  Bruce keppir því aðeins við sjálfan sig og þann 26. mars mun koma í ljós hvaða mynd hann þykir hafa leikið verst í. Myndirnar sem um ræðir eru American Siege, Apex, Midnight in the Switchgrass, Cosmic Sin, Deadlock, Fortress, Out of Death og Survive the Game.

Á meðal þeirra leikara sem tilnefndir eru til Razzie verðlauna í ár eru Mark Wahlberg, Amy Adams, Megan Fox, Ben Affleck, Jaret Leto og Mel Gibson.

Söngleikjamynd Netflix um Díönu prinsessu þótti sú allra versta í ár. Aðrar kvikmyndir sem hlutu tilnefningu sem versta kvikmyndin voru Infinite, Karen, The Woman in the Window og Space Jam: A New Legacy. Körfuboltamaðurinn Lebron James er einnig tilnefndur fyrir hlutverk sitt í þessari endurgerð á Space Jam.

Hér fyrir neðan má sjá myndband Razzie-hátíðarinnar þar sem tilnefningarnar voru tilkynntar.  Klukkan 13 í dag kemur svo í ljós hverjir hljóta tilnefningar til Óskarsverðlaunanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×