Körfubolti

Jón Arnór aftur í KR-treyjuna

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Arnór Stefánsson varð fimm sinnum Íslandsmeistari með KR og tekur nú slaginn með KR-b, eða „Bumbunni“ eins og liðið er kallað.
Jón Arnór Stefánsson varð fimm sinnum Íslandsmeistari með KR og tekur nú slaginn með KR-b, eða „Bumbunni“ eins og liðið er kallað. vísir/daníel

Það kann að vekja nostalgíugleði í hjörtum KR-inga að Jón Arnór Stefánsson, einn albesti körfuknattleikmaður Íslands frá upphafi, hafi í dag fengið félagaskipti frá Val yfir í KR.

Það er þó ekki svo að hinn 39 ára gamli Jón hafi ákveðið að taka slaginn með KR í Subway-deildinni og ætli að hjálpa liðinu í þeirri erfiðu stöðu sem það er í, í neðri hluta deildarinnar.

Skórnir eru vissulega komnir úr hillunni en Jón staðfesti það við Vísi að það væri einungis svo að hann gæti spilað með KR-b, sem leikur í 2. deild. Liðið er þar í 6. sæti af 10 liðum.

Jón á ríkan þátt í sigurgöngu KR í íslenskum körfubolta á þessari öld en hann vann fimm Íslandsmeistaratitla með liðinu.

Jón hætti í körfubolta á afreksstigi í vor, eftir að hafa tekið eitt tímabil með Val. Önnur tímabil sem hann spilaði hér á landi voru í búningi KR en Jón var lengst af atvinnumaður; á Spáni, Ítalíu, í Rússlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Hann var valinn íþróttamaður ársins á Íslandi árið 2014, fór tvisvar með Íslandi í lokakeppni EM, vann Evrópukeppni með rússneska liðinu Dynamo Pétursborg árið 2005, og varð ítalskur bikarmeistari með Napoli árið 2006, svo fátt eitt sé nefnt af afrekaskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×