Handbolti

Spán­verjar í úr­slit eftir sætan sigur á Dönum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Spánverjar eru mættir í úrslit Evrópumótsins.
Spánverjar eru mættir í úrslit Evrópumótsins. EPA-EFE/Tibor Illyes

Evrópumeistarar Spánar gerði sér lítið fyrir og lögðu heimsmeistara Danmerkur í undanúrslitum Evrópumótsins í handbolta, Íslendingum til mikillar gleði. Lokatölur 29-25 og Spánn komið í úrslit þriðja Evrópumótið í röð.

Eftir að Danir virtust einfaldlega leggja árar í bát gegn Frakklandi og tapa leiknum í kjölfarið með einu marki var ljóst að Ísland kæmist ekki í undanúrslit EM.

Íslenska þjóðin tók tapinu misvel og mörg hver gengu langt yfir strikið, flest vonuðust þó til að danska liðið myndi súpa seyðið af hruninu gegn Frakklandi í undanúrslitum sem það og gerði.

Danir byrjuðu leikinn reyndar betur og komust fjórum mörkum yfir snemma leiks. Spánverjar voru ekki á því að gefast upp og tókst á endanum að minnka muninn niður í aðeins eitt mark áður en fyrri hálfleikur var úti, staðan 14-13 Dönum í vil er flautað var til hálfleiks.

Ekki leið langur tími þangað til dæmið snerist við í síðari hálfleik. Allt í einu voru Spánverjar komnir með yfirhöndina og létu þeir hana alls ekki af hendi.

Gonzalo Pérez de Vargas hrökk í gírinn í marki Spánverja og varði hvert skotið á fætur öðru, á sama tíma raðaði Aleix Gómez Abelló inn mörkum á hinum enda vallarins og fór það svo að Spánn tryggði sér sæti í úrslitum Evrópumótsins í handbolta.

Er þetta í þriðja skiptið í röð sem Spánverjar komast í úrslit EM í handbolta. Síðar í kvöld kemur svo í ljós hvort andstæðingurinn þar verður Frakkland eða Svíþjóð.

Aleix Gómez Abelló skoraði 11 mörk í liði Spánar, þar á eftir kom Joan Cañellas Reixach með sjö mörk. Þá varði Gonzalo Vargas 14 skot í markinu, þar af fjölda dauðafæra í síðari hálfleik.

Hjá Dönum var Mikkel Hansen markahæstur með átta mörk ásamt því að leggja upp nokkur til viðbótar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.