Fótbolti

SønderjyskE kaupir Atla frá Víkingi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli Barkarson lék með Víkingi í tvö ár.
Atli Barkarson lék með Víkingi í tvö ár. vísir/Hulda Margrét

Danska úrvalsdeildarliðið SønderjyskE hefur keypt Atla Barkarson frá Íslands- og bikarmeisturum Víkings.

Atli, sem er tvítugur vinstri bakvörður, skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning við SønderjyskE. Hann lék sína fyrstu A-landsleiki gegn Úganda og Suður-Kóreu fyrr í þessum mánuði.

Atli er uppalinn hjá Völsungi á Húsavík en fór ungur til Norwich City á Englandi. Hann gekk í raðir Fredrikstad í Noregi 2019 en sneri aftur til Íslands ári seinna og samdi við Víking.

Á síðasta tímabili var Atli í lykilhlutverki hjá Víkingum sem unnu tvöfalt. Hann lék alla 22 leiki Víkings í Pepsi Max-deildinni og skoraði eitt mark, í sigrinum fræga á KR í næstsíðustu umferðinni.

Atli er þriðji varnarmaðurinn sem Víkingar missa eftir síðasta tímabil en sem kunnugt er lögðu Sölvi Geir Ottesen og Kári Árnason skóna á hilluna. Víkingar hafa aftur á móti fengið tvo varnarmenn; Davíð Örn Atlason og Kyle McLagan.

Hjá SønderjyskE hittir Atli fyrir landa sinn, Kristófer Inga Kristinsson. SønderjyskE er í ellefta og næstneðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar sem hefst á ný um miðjan febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×