Erlent

Einn látinn eftir skot­á­rásina í Þýska­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögregla skoðar skotvopnið sem árásarmaðurinn beitti á vettvangi.
Lögregla skoðar skotvopnið sem árásarmaðurinn beitti á vettvangi. Getty/Sebastian Gollnow

Einn er látinn eftir að skotárás var gerð á háskólann í Heidelberg í Þýskalandi fyrr í dag og þrír til viðbótar særðust. Árásarmaðurinn tók sitt eigið líf eftir að hann skaut nemendur á færi inni í skólastofu.

Mikill viðbúnaður var hjá viðbragðsaðilum í borginni Heidelberg í Suðvestur-Þýskalandi í dag þegar fregnir bárust af því að árásarmaður vopnaður skotvopni væri laus inni í skólabyggingum á Neuenheimer Feld háskólasvæðinu. 

Að sögn yfirvalda var  maðurinn nemandi við skólann en hann mætti þangað vopnaður byssu með löngu hlaupi í morgun, gekk inn í skólastofu þar sem fyrirlestur stóð yfir og hóf að skjóta. 

Uppfært klukkan 16:40.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum er einn af þeim fjórum sem særðust í árásinni látinn. Fréttastofa AFP greinir frá því á Twitter. 

Að sögn yfirvalda bendir allt til þess að maðurinn hafi verið einn að verki og að hvorki trúarlegar né pólitískar ástæður hafi verið að baki árásinni. Maðurinn hafi tekið sitt eigið líf inni í skólanum eftir að honum tókst að særa fjóra, sumir þeirra eru alvarlega slasaðir.

Búið er að loka háskólasvæðið í Neuenheimer Feld af en á svæðinu eru kenndar ýmsar náttúruvísindagreinar. Þar er til að mynda hluti háskólasjúkrahússins og grasagarður. 

Samkvæmt frétt SWR sendu stjórnendur háskólans út tölvupóst eftir hádegi í dag þar sem nemendur voru beðnir um að forðast svæðið. 

Mikill viðbúnaður er við háskólann þar sem fjórir særðust.Getty/Uwe Anspach

Háskólinn í Heidelberg er sá elsti í Þýskalandi og hefur verið starfandi frá árinu 1386. Skotárásir á skkóla í Þýskalandi eru sjaldséðar, alls sex í gegn um tíðina. Sú síðasta var árið 2009 í Winnenden gagnfræðiskólanum í suðvesturhluta Þýskalands. Sextán féllu í þeirri árás og níu særðust. 


Tengdar fréttir

Nokkrir særðir eftir skotárás í þýskum háskóla

Mikill viðbúnaður er við háskólann í Heidelberg í Þýskalandi eftir að maður vopnaður skotvopni skaut á hóp nemenda í fyrirlestrarsal í skólanum. Nokkrir eru særðir að sögn lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×