Körfubolti

Bestu miðherjar NBA fóru á kostum og skoruðu samtals 99 stig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Jokic sýndi allar sínar bestu hliðar gegn Los Angeles Clippers.
Nikola Jokic sýndi allar sínar bestu hliðar gegn Los Angeles Clippers. getty/Isaiah Vazquez

Bestu miðherjar NBA-deildarinnar, Nikola Jokic og Joel Embiid, voru í miklum ham í nótt og áttu báðir stórleik í sigri sinna liða.

Jokic var með sannkallaða tröllaþrennu þegar Denver Nuggets sigraði Los Angeles Clippers í framlengingu, 130-128. Serbinn skoraði 49 stig, tók fjórtán fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Hann hitti úr sextán af 25 skotum sínum og kláraði fjórtán af sextán vítaskotum.

Aaron Gordon skoraði 28 stig fyrir Denver, þar á meðal sigurkörfu liðsins þegar tæpar tvær sekúndur voru eftir.

Embiid skoraði fimmtíu stig á aðeins 27 mínútum í sigri Philadelphia 76ers á Orlando Magic, 123-110. Hann tók einnig tólf fráköst. Frá því skotklukkan var tekin upp í NBA tímabilið 1954-55 hefur aðeins Klay Thompson skorað fimmtíu stig eða meira á jafn stuttum tíma.

Embiid hefur spilað frábærlega að undanförnu en í síðustu tíu leikjum sínum er hann með 31,5 stig, 9,7 fráköst og 4,5 stoðsendingar að meðaltali. Eftir gott gengi upp á síðkastið er Philadelphia komið upp í 5. sæti Austurdeildarinnar.

Meistarar Milwaukee Bucks unnu spútniklið deildarinnar, Memphis Grizzlies, á heimavelli, 126-114.

Giannis Antetokounmpo skoraði 33 stig, tók fimmtán fráköst og gaf sjö stoðsendingar fyrir Milwaukee sem er í 4. sæti Austurdeildarinnar. Khris Middleton var með 27 stig, sjö fráköst og sjö stoðsendingar.

Ja Morant skoraði 33 stig fyrir Memphis og gaf fjórtán stoðsendingar. Jaren Jackson skoraði 29 stig.

Úrslitin í nótt

  • Denver 130-128 LA Clippers
  • Philadelphia 123-110 Orlando
  • Milwaukee 126-114 Memphis
  • Washington 118-119 Brooklyn
  • Atlanta 134-122 Minnesota
  • Boston 102-111 Charlotte
  • Miami 104-92 Portland
  • Chicago 117-104 Cleveland
  • Dallas 102-98 Toronto
  • San Antonio 118-96 Oklahoma
  • Utah 111-116 Houston
  • Sacramento 131-133 Detroit
  • LA Lakers 104-111 Indiana

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×