Körfubolti

Curry svarar þeim sem segja hann hafa eyðilagt körfuboltann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen Curry í leik Golden State Warriors og Detroit Pistons þar sem hann skoraði átján stig.
Stephen Curry í leik Golden State Warriors og Detroit Pistons þar sem hann skoraði átján stig. epa/JOHN G. MABANGLO

Stephen Curry hefur litlar áhyggjur af umkvörtunum þeirra sem segja að hann hafi eyðilagt körfuboltann með leikstíl sínum.

Curry er einn af áhrifamestu körfuboltamönnum allra tíma en hann er nokkurs konar andlit þriggja stiga byltingarinnar sem hefur yfirtekið NBA-deildina á undanförnum árum. Ekki eru þó allir sáttir með þessa breytingu á leiknum, sérstaklega ekki þeir eldri og íhaldssamari.

„Stundum er ég merktur í einhverjar færslur á samfélagsmiðlum þar sem ég er sagður hafa skemmt leikinn,“ sagði Curry í viðtali við The Athletic.

„Allir sem vita eitthvað um körfubolta vita hvar ég stend í þeim málum. Þetta er frábær leið til að spila leikinn. Þetta opnar fyrir sköpunarkraftinn. Allir elska að skjóta. En þú getur ekki sleppt æfingunum og allri vinnunni sem ég og allir á þessu getustigi hafa lagt í þetta. Ekki sleppa því. Þetta er skemmtileg leið til að spila og það er frábært að vita allir finna tengingu við hana.“

Curry kippir sér lítið upp við gagnrýnisraddirnar. „Fólk mun bulla. Hatur, ást, gagnrýni og fögnuður. Allt þetta. Þess vegna stend ég keikur.“

Curry sló met Rays Allen yfir flestar þriggja stiga körfur í sögu NBA í síðasta mánuði. Hann hefur alls sett niður 3024 þrista á ferlinum í 7040 tilraunum. Það gerir 43 prósent nýtingu.

Hinn 33 ára Curry er með 26,3 stig að meðaltali í leik í vetur en hefur ekki verið með verri þriggja stiga nýtingu síðan hann kom inn í NBA-deildina 2009, eða 38,4 prósent.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×