Körfubolti

Vand­ræði Lakers halda á­­fram og aftur lágu Nautin í valnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron var ekki sáttur.
LeBron var ekki sáttur. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Vandræði Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta halda áfram en liðið steinlá gegn Denver Nuggets í nótt. Þá hafði Boston Celtics betur gegn Chicago Bulls. Alls fóru 10 leikir fram í deildinni í nótt.

Leikur Denver og Lakers var mögulega smá áhugaverður í fyrsta leikhluta en svo kafsigldi Denver einfaldlega yfir LeBron James og félaga, lokatölur 133-96.

Nikola Jokic var að venju í fantaformi hjá Denver með þrefalda tvennu. Hann skoraði 17 stig, gaf 13 stoðsendingar og tók 12 fráköst. Stigahæstur hjá Denver var samt Nah‘Shon Hyland með 27 stig en hann tók einnig 10 fráköst. Þá skoraði Jeff Green 26 stig.

Hjá Lakers var LeBron með 25 stig, Russell Westbrook 19 og aðrir minna.

Eftir að hafa unnið hvern leikinn á fætur öðrum þá töpuðu Nautin frá Chicago með 41 stigs mun gegn Golden State Warriors í síðasta leik. Þeim tókst ekki að bæta upp fyrir það er þeir heimsóttu Boston þar sem heimamenn í Celtics unnu 114-112.

Boston byrjaði betur og leiddi framan af leik en í 4. leikhluta náðu gestirnir forystunni. Boston náði forystunni þökk sé fjölda vítaskota undir lok leiks en Bulls átti síðustu sókn leiksins. Skot Nikola Vucevic fór af hringnum, frákastið féll í hendur DeMar DeRozan sem skaut er flautan gall. Skot hans hitti ekki hringinn.

Jayson Tatum var stigahæstur hjá Celtics með 23 stig en alls skoruðu fjórir leikmenn liðsins 15 stig eða meira. Vucevic var stigahæstur hinum megin með 27 stig en DeRozan kom þar á eftir með 23 stig.

Pascal Siakam skoraði 30 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar í 103-96 sigri Toronto Raptors á Milwaukee Bucks. Giannis Antetokounmpo skoraði 30 stig fyrir Milwaukee.

Joel Embiid skoraði 32 stig og tók 12 fráköst í 109-98 sigri Philadelphia 76ers á Miami Heat.

Önnur úrslit

Washington Wizards 110-115 Portland Trail Blazers

New Jersey Nets 120-New Orleans Pelicans

Atlanta Hawks 108-117 New York Knicks

Oklahoma City Thunder 102-107 Cleveland Cavaliers

San Antonio Spurs 101-94 Los Angeles Clippers

Dallas Mavericks 108-92 Orlando Magic


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×