Sport

Þjálfari Bucs: Skrípaleikur ef Brady verður ekki kosinn mikilvægastur í NFL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady veifar til áhorfenda eftir sigur á Carolina Panthers í lokaleik deildarkeppninnar.
Tom Brady veifar til áhorfenda eftir sigur á Carolina Panthers í lokaleik deildarkeppninnar. AP/Mark LoMoglio

Bruce Arians, þjálfari Tampa Bay Buccaneers, er á því að hinn 44 ára gamli Tom Brady hafi ekki bara verið besti leikmaður NFL-deildarinnar á þessu tímabili heldur sá langbesti.

Brady var að setja persónuleg met með Tampa Bay Buccaneers þrátt fyrir að vera að spila þegar jafnaldrar hans hafa verið með skóna upp á hillu í áratug eða meira.

„Ég tel að það væri algjör skrípaleikur ef hann verður ekki kosinn mikilvægastur,“ sagði Bruce Arians á fyrsta blaðamannafundi fyrir komandi leik liðsins á móti Philadelphia Eagles í úrslitakeppninni.

„Hann hefur aldrei klárað fleiri sendingar, kastað fyrir fleiri jördum eða átt fleiri snertimarkssendingar. Hann er með allan pakkann og þetta á ekki að vera spennandi kapphlaup,“ sagði Arians.

Tom Brady var efstur í NFL-deildinni í öllum fjórum stærstu tölfræðiþáttum leikstjórndana og varð aðeins sá þriðji sem nær því frá 1991 en hinir eru Drew Brees (2018) og Peyton Manning (2013).

Brady endaði tímabilið með að reyna 719 sendingar, 485 af þeim heppnuðust og þær fóru fyrir 5361 jördum og 43 snertimörkum. Enginn hefur áður náð 485 heppnuðum sendingum á einu tímabili en metið átti Drew Brees.

Brady hefur þrisvar sinnum verið kosinn mikilvægasti leikmaður NFL-deildarinnar en það var árin 2007, 2010 og 2017. Hann hefur fimm sinnum verið kosinn sá mikilvægasti í Super Bowl.

Mesta samkeppnin um útnefninguna kemur líklegast frá Aaron Rodgers sem á möguleika á að vinna þessi verðlaun annað árið í röð.

NFLFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.