Sport

Djokovic braut sóttvarnarreglur: Baðst afsökunar en talar um mannleg mistök

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic á æfingu í Ástralíu þar sem hann er nú að undirbúa sig undir Opna ástralska meistaramótið.
Novak Djokovic á æfingu í Ástralíu þar sem hann er nú að undirbúa sig undir Opna ástralska meistaramótið. Getty/TPN

Novak Djokovic viðurkenndi mistök við skráningu upplýsinga við komu sína til Ástralíu en í gær kom það fram í áströlskum fjölmiðlum að hann hafði ekki sagt rétt frá um ferðalag sitt til Spánar fyrir komu sína til Ástralíu.

Djokovic sendi frá sér yfirlýsingu á meðan hann var að spila æfingaleik á móti tvítugum áströlskum tennisspilara.

Dómstóll hafði úrskurðað Djokovic í hag og endurkallað vegabréfsáritun hans eftir að vegabréfaeftirlit Ástrala neitaði að hleypa honum inn í landið og lét hann dúsa á farsóttarhóteli yfir eina helgi.

Djokovic er ekki bólusettur og óbólusettir útlendingar mega ekki koma inn í landið. Serbneska tennisstjarnan fékk undanþágu af því að hann fékk kórónuveiruna í síðasta mánuði. Dómstóll tók þá skýringu gilda og hleypti Djokovic inn í landið.

Djokovic setti yfirlýsingu sína inn að Instagram og sagði vangaveltur um lygar og annað slíkt mjög særandi fyrir sig. Hann sagðist vilja koma málunum á hreinu og að réttar upplýsingar væru á borðinu.

Djokovic hafði tekið hraðpróf dagana áður en hann fékk jákvæða prófið. Prófin tók hann til að gæta ítrustu varkárni af því að hann var einkennalaus.

Hann baðst líka afsökunar á því að hafa brotið reglur um einangrun eftir að hann smitaðist þegar hann hitti blaðamann tveimur dögum eftir að hann vissi að hann væri smitaður. Það gerðist í Serbíu en hann gaf ekki upp réttar upplýsingar við komuna til Ástralíu.

Serbinn átti að láta að vita hvort að hann hefði farið til annars lands tveimur vikum fyrir ferðlag sitt og það hafði sést til hans bæði á Spáni og í Serbíu á þeim tíma.

Djokovic sagði að teymi hans hafi sent inn eyðublaðið fyrir sína hönd og merkt í vitlausan kassa yfir ferðalög fjórtán dögum fyrir komuna til Ástralíu.

„Þetta voru mannleg mistök og ekki gert viljandi. Teymi mitt hefur gefið áströlskum yfirvöldum upp viðbótarupplýsingar til að koma þessu á hreint,“ skrifaði Djokovic.

Ráðherra innflytjendamála í Ástralíu getur enn afturkallað landvistarleyfi Djokovic en Opna ástralska meistaramótið hefst á mánudaginn í næstu viku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.