Körfubolti

Kyri­e snýr aftur: „Enginn í NBA hefur það sem Nets hefur“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þríeyki Brooklyn Nets: Kevin Durant, James Harden og nú Kyrie Irving.
Þríeyki Brooklyn Nets: Kevin Durant, James Harden og nú Kyrie Irving. Jim Davis/Getty Images

Hinn óbólusetti Kyrie Irving mun spila sinn fyrsta leik á tímabilinu í NBA-deildinni í körfubolta þegar Brooklyn Nets sækir Indiana Pacers heim í nótt.

Kyrie Irving er einn þeirra sem hafa ekki látið bólusetja sig gegn kórónuveirunni. Sökum þess hefur hann orðið af mörgum milljónum Bandaríkjadala þar sem hann hefur ekki enn spilað leik með Brooklyn Nets á tímabilinu.

Fjölmörg lið í NBA-deildinni hafa sett þá kröfu að leikmenn séu bólusettir ef þeir ætla sér að spila í höllum þeirra. Nets er eitt þeirra félaga og því hefur Kyrie ekki mátt spila né æfa með Nets.

Fyrir nokkru síðan var staðfest að hann gæti æft með Brooklyn þegar liðið ferðast sem og spilað þá útileiki þar sem heimaliðið leyfir óbólusettum leikmönnum að taka þátt. 

Hann þarf þó alltaf að uppfylla ákveðin skilyrði, skila neikvæðum prófum áður en hann mætir á æfingu eða í leik og þar fram eftir götunum.

Eftir að tilkynnt var um endurkomu Kyrie nældi hann sér í veiruna og því hefur endurkoman tafist. Nú er hún loks að verða að veruleika.

Fyrrverandi NBA-goðsagnirnar Shaquille O´Neal og Charles Barkley láta gamminn geysa í þætti sínum NBA on TNT. Þeir – ásamt fleirum – eru vægast sagt spenntir fyrir því að sjá Kyrie í Brooklyn-treyjunni.

Með Kyrie Irving, James Harden og hinn óstöðvandi Kevin Durant er fátt ef eitthvað sem getur stöðvað Brooklyn Nets að þeirra mati.

Nets er sem stendur í 2. sæti Austurdeildarinnar með 23 sigra og 12 töp eftir 35 leiki. Eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð er ljóst að endurkoma Kyrie gæti ekki komið á betri tíma þar. Nú er bara að bíða og sjá hvort hversu ryðgaður Kyrie er eftir nokkra mánaða pásu.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×