Körfubolti

Sterk byrjun lagði grunninn að sigri Martins og félaga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia unnu sterkan sigur í kvöld.
Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia unnu sterkan sigur í kvöld. FIBA

Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia unnu góðan 14 stiga sigur er liðið heimsótti Venezia í Eurocup í kvöld. Lokatölur urðu 81-67, en þetta var þriðji sigur Valencia í röð í keppninni.

Martin og félagar byrjuðu af miklum krafti og skoruðu fyrstu 12  stig leiksins. Raunar skoraði liðið 17 af fyrstu 19 stigum leiksins, og setti þannig tóninn snemma leiks. Heimamenn í Venezia náðu að laga stöðuna aðeins fyrir lok fyrsta leikhluta, en að honum loknum var staðan 27-16, Valencia í vil.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og því var munurinn tíu stig þegar flautað var til hálfleiks, 42-32.

Martin og félagar náðu að auka forskot sitt á ný í þriðja leikhluta og komust mest í 17 stiga forskot. Þegar komið var að lokaleikhlutanum var munurinn 15 stig, staðan 62-47, Valencia í vil.

Gestirnir frrá Valencia náðu svo mest tuttugu stiga forskoti snemma í fjórða leikhluta og gerðu þar með út um leikinn. Lokatölur urðu 81-67, en Valencia er nú með fjóra sigra og tvö töp í þriðja sæti B-riðils eftir sex leiki.

Martin skoraði fimm stig fyrir Valencia, tók eitt frákast og gaf sex stoðsendingar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.