Körfubolti

Körfu­bolta­kvöld um Þór Ak.: „Ef þú ert ekki með vilja þá ertu dauða­dæmdur“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Átta töp í röð og það er komin fallfnykur af Þórsurum.
Átta töp í röð og það er komin fallfnykur af Þórsurum. Vísir/Bára Dröfn

Frammistaða Þórs Akureyrar í tapinu gegn Breiðabliki um helgina var til umræðu í Körfuboltakvöldi. Mikill fallfnykur er af Þórsurum sem þurfa að girða sig í brók ef liðið ætlar ekki að spila í 1. deild á næstu leiktíð.

„Þetta var svo stórt augnablik fyrir Þórsara. Ekkert gengið, loksins með fullskipað lið. Fara í Smárann í bullandi fallbaráttu og Frikki, þetta er varnarleikurinn og ákefðin sem var boðið upp á,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson er myndir af varnarleik Akureyringa voru spilaðar.

„Blikarnir skora alltaf mikið og Þórsarar með þessum breytingum sem hafa verið gerðar, voru bara ekki tilbúnir í þessi hlaup og svona hátt stigaskor. Það hefur verið þannig gegn Blikum að það þarf að skora 110 til 112 stig til að vinna þá og þetta Þórslið hefur ekki burði til þess,“ svaraði Friðrik Ragnarsson.

„Enginn vilji,“ sögðu þeir Kjartan Atli og Friðrik í kór um frákast sem Everage Lee Richardson náði þar sem hann þurfti að hlaupa 6-7 metra til að ná boltanum en samt sem áður var enginn Þórsari sjáanlegur.

„Ef þú ert ekki með vilja þá ertu dauðadæmdur,“ bætti Friðrik við.

Klippa: Körfuboltakvöld: Fallfnykur af Þór Akureyri

„Þessi frammistaða, þeir myndu ekki vinna 1. deildina. Þetta er það lélegt. Þegar það er enginn löngun og enginn vilji fyrir hendi þá er þetta bara falllið. Sorglegt, bara í byrjun desember,“ sagði Teitur Örlygsson að endingu.

Þór Akureyri er á botni Subway-deildar karla í körfubolta með 0 stig að loknum 8 leikjum. Ljósglætan við enda ganganna er sú að næstu þrjú lið þar fyrir ofan - Vestri, ÍR og Breiðablik - eru öll með fjögur stig.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.