Körfubolti

Clippers hafði betur í slagnum um Engla­borgina | Stríðs­mennirnir hefndu sín gegn Sólunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron og félagar í Lakers voru alltaf skrefi eftir á gegn Clippers.
LeBron og félagar í Lakers voru alltaf skrefi eftir á gegn Clippers. Harry How/Getty Images

Fjöldi leikja fór fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Þar ber helst að nefna borgarslag Los Angeles Lakers og Clippers. Þá náði Golden State Warriors fram hefndum gegn Phoenix Suns í toppslag Vesturdeildarinnar.

Það var vitað að leikur Lakers og Clippers yrði æsispennandi enda liðin með nokkurn veginn sömu tölfræði fyrir leik. Lakers voru 12-11 á meðan Clippers voru 11-11.

Lið Lakers fékk jákvæðar fréttir fyrr í gær er ljóst var að stórstjarna liðsins, LeBron James, væri ekki með kórónuveiruna og væri leikfær. Á sama tíma er Clippers enn án Kawhi Leonard en það kom ekki að sök í nótt.

Clippers hófu leikinn mun betur og unnu í raun fyrst þrjá leikhluta leiksins þó alltaf væri mjótt á mununum. Staðan í hálfleik 53-50 Clippers í vil. Sá munur var orðinn 12 stig í þriðja leikhluta en LeBron, Anthony Davis og félagar neituðu að gefast upp. 

Þegar innan við mínúta var til leiksloka var munurinn kominn niður í aðeins tvö stig og endurkoma í kortunum. Luke Kennard og Marcus Morris settu hins vegar niður risastór þriggja stiga skot fyrir Clippers sem vann leikinn með fjögurra stiga mun, lokatölur 119-115.

Morris gerði sér lítið fyrir og skoraði sex þriggja stiga körfur í leiknum, það munar um minna.

Morris var stigahæstur hjá Clippers með 21 stig. Þar á eftir komu Kennard og Paul George báðir með 19 stig. Sá síðarnefndi bauð einnig upp á átta fráköst og níu stoðsendingar.

Hjá Lakers var Davis stigahæstur með 27 stig ásamt því að taka 10 fráköst. LeBron skoraði 23 stig, tók 11 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Þá skoraði Malik Monk 20 stig.

Toppslagur Vesturdeildar var langtum frá jafn spennandi og leikurinn í Los Angeles. Fyrir leikinn voru liðin jöfn á toppi deildarinnar með 19 sigra og aðeins þrjú töp. Það var þó ekki að sjá er stríðsmennirnir hans Steve Kerr náðu fram hefndum gegn Sólunum frá Phoenix og það sannfærandi.

Það er þó vert að taka fram að það vantaði skærustu sólina í lið Suns í nótt, Devin Booker var fjarri góðu gamni vegna meiðsla aftan í læri.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn en í þeim síðari stungu Stephen Curry og félagar einfaldlega af. Unnu þriðja leikhluta með níu stiga mun og þann fjórða með tíu stiga mun, lokatölur 118-96.

Curry var stigahæstur í liði Warriors með 23 stig ásamt því að taka 5 fráköst og gefa jafn margar stoðsendingar. Gary Payton II og Andrew Wiggins komu þar á eftir með 19 stig hvor. Þá var Draymond Green með 9 stig, 9 stoðsendingar og 9 fráköst.

Þá vann Utah Jazz sjö stiga sigur á Boston Celtics, 137-130. Donavan Mitchell með 34 stig fyrir Jazz og Mike Conley þar á eftir með 29 stig. Jayson Tatum setti niður 37 stig fyrir Celtics og Dennis Schröder gerði 26 stig.

Önnur úrslit

Indiana Pacers 104-113 Miami Heat

Washington Wizards 101-116 Cleveland Cavaliers

Atlanta Hawks 96-98 Philadelphia 76ers

Brooklyn Nets 110-105 Minnesota Timberwolves

Houston Rockets 118-116 Orlando Magic

Dallas Mavericks 91-107 New Orleans Pelicans

Staðan er þannig að Brooklyn Nets eru á toppi Austurdeildar (16-6), þar á eftir koma Chicago Bulls (15-8) og Heat, Wizards og Milwaukee Bucks (öll 14-9). Í Vesturdeildinni eru Warriors (19-3) og Suns (19-4) á toppnum. Jazz (15-7) og Memphis Grizzlies (12-10) koma þar á eftir.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×