Umfjöllun og viðtöl: KA - Grótta 31-29 | Heimasigur í spennandi leik

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
KA lagði Gróttu á Akureyri.
KA lagði Gróttu á Akureyri. Vísir/Elín Björg

KA vann góðan tveggja marka sigur á Gróttu í hörkuleik er liðin mættust í Olís-deild karla á Akureyri í dag, lokatölur 31-29 heimamönnum í vil. Leikurinn var liður í 11. umferð. Fyrir leikinn höfðu bæði lið unnið þrjá leiki í deild og voru í 9. og 10. sæti deildarinnar og því mikilvægt fyrir bæði lið að ná í tvö stigin sem í boði voru til að halda í við liðin fyrir ofan sig.

Fyrri hálfleikur var kaflaskiptur. Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu mest sjö marka forystu, 9-2 þegar um þrettán mínútur voru búnar af leiknum. KA spila frábæra vörn, þeir komu mjög grimmir til leiks sem virtist koma gestunum á óvart sem voru lengi í gangi. Það var svolítið af töpuðu boltum hjá gestunum en helst var það færanýtingin sem varð þeim að falli, á meðan nánast all gekk upp sóknarlega hjá KA. 

Eftir því sem leið á hálfleikinn komust Gróttumenn betur inn í leikinn og þegar liðin gengu til búningsklefa hafði Grótta náð að saxa á forskotið en það munaði aðeins þremur mörkum á liðunum í hálfleik, staðan 15-12 fyrir heimamenn. 

Seinni hálfleikur átti eftir að verða mjög sveiflukenndur, mikið um tapaða bolta og klaufaskap í sókn á báða bóga. Gestirnir náðu að minnka muninn niður í tvö mörk eftir um fimm mínútur, staðan 18 - 16. KA náði svo aftur góðri stöðu þegar þeir komust í sex marka forskot, 24 - 18 þegar korter var eftir. 

Gestirnir neituðu að gefast upp og komu enn og aftur til baka og minnkuðu muninn niður í eitt mark þegar sex mínútur voru eftir af leiknum, staðan 26-25. Einar Rafn skaut framhjá í næstu sókn og Grótta fékk tækifæri á að jafna. Hannes Grimm fékk þá dæmda á sig ólöglega blokkeringum sem Gróttumenn voru allt annað en sáttur með. 

Eftir það atvik náði KA þriggja marka forskoti og brekkan of brött fyrir gestina og heimamenn kláruðu leikinn og náðu þar með í sinn fjórða sigur í deild, lokatölur 31-29. 

Afhverju vann ?

Leikurinn var mjög kaflaskiptur. KA menn byrjuðu mjög vel og má segja að það hafi verið undirstaðan að sigrinum. Það fór mikil orka hjá gestunum í að elta og ná upp forskoti sem KA náði nokkrum sinnum að búa til í leiknum. Færanýting gestanna var slæm í fyrri hálfleik og varð þeim að falli. KA menn mætu með kassann úti í dag og virtust hafa trú á verkefninu sem skilaði þeim að lokum sigri.

Hverjar stóðu upp úr?

Óðinn Þór Ríkharðsson var frábær fyrir lið KA og skoraði hvorki meira né minna en 14 mörk í leiknum. Einar Rafn var líka mjög góður og skapaði 11 færi fyrir liðsfélaga sínum en Einar, Patrekur og Ólafur voru allir með fjögur mörk í leiknum.

Einar Baldvin Baldvinsson komst í takt við leikinn eftir því sem leið á og klukkaði 11 bolta í markinu hjá Gróttu. Þá átti Lúðvík Arnkelsson flotta innkomu i seinni hálfleik en hann skoraði í heildina 6 mörk. 

Hvað gekk illa?

Grótta byrjaði leikinn illa og færanýting í fyrri hálfleik var ekki til að hrópa húrra fyrir en þeir skutu mikið í stöngina og framhjá úr góðum færum. Markmenn KA voru samanlagt með níu skot varin allan leikinn en samt náði KA oft fínu forskoti í leiknum sem gestirnir þurftu að eyða orku í að vinna upp. 

Bæði lið voru svo með nokkuð af töpuðum boltum sem gerði leikinn afskaplega sveiflukenndan. 

Hvað gerist næst?

KA fær HK í heimsókn í næstu umferð sem fer fram næstkomandi föstudag, 12. desember. Sama dag heimsækir Grótta Hlíðarenda.

Arnar Daði: Viðbjóðslega svekktur

Arnar Daði var súr og svekktur í kvöld.vísir/hulda margrét

„Ég er viðbjóðslega svekktur, svekktur fyrir hönd strákanna, svekktur yfir færanýtingunni í fyrri hálfleik sem gjörsamlega fer með þennan leik. Í öðru lagi er ég líka svekktur að öll okkar orka sem fer í það að minnka þetta niður í eitt mark, lítið eftir og mér fannst mómentið vera með okkur að þá förum við í sókn þar sem við getum jafnað og þá er dæmd einhver skíta ólögleg blokkering. Nógu marga 50/50 dóma fékk KA að ég hélt að við ættum kannski inni einn en það var ekki raunin,“ sagði Arnar Daði þjálfari Gróttu eftir 31-29 tap á móti KA í KA heimilinu í kvöld. 

„Strákarnir eyddu þvílíkri orku í þennan leik og að fá ekkert út úr þessu er ömurlegt. Hvað þá að eiga eftir 5 tíma rútuferð heim, guð minn góður ég veit ekki hvað ég á að gera á leiðinni heim sko.“

Arnar Daði var ósáttur við dóm í lok leiksins þegar Grótta fékk tækifæri til á að jafna leikinn.

„Ég er ósáttur við dómarana en ég er miklu meira ósáttur við strákana, hvering við byrjum þetta og hversu léleg færanýtingin var í fyrri hálfleik. Ef þú ert að spyrja með hvort ég er meira ósáttur við dómarana eða strákana þá er ég meira ósáttur við strákana. Ég ætla ekki að fara kenna dómurunum um en mér fannst við líka þurfa að glíma við dómarana í leiknum. Við lærum bara af þessu.“

Á 13. mínútu leiksins var staðan 9-2 fyrir KA, spurður að því hvort þeir hafi einfaldlega ekki verið mætir til leiks var Arnar ekki sammála.

„Við mætum til leiks, við mætum norður í gær, mætum tveimur tímum fyrir leik og byrjuðum með sjö inn á vellinum. Þannig ég er ekki sammála að við höfum ekki verið mætir til leiks en það er sem gerist er að færanýting er ömurleg og gerir það að verkum að þeir komast í 11-4. Ég held við höfum klikkað á tveimur línufærum, Andri Þór endar með 1 mark úr 6 skotum og meira til. Á þessum 11-4 kafla erum við að klikka úr einhverjum 6 dauðafærum. Það er mjög auðvelt að greina þennan leik en af hverju það var, veit ég ekki.“

„Við reyndum að undirbúa liðið vel fyrir þetta stóra verkefni. Ég reyndi að útskýra fyrir mönnum að þetta yrði mjög erfiður leikur og það yrði allt undir hér í KA heimilinu, þetta er lið sem talaði um það á markmiðafundi fyrir tímabilið að þeir ætluðu að vera í topp fjórum en eru í 10. sæti. Þetta var allt eða ekkert fyrir KA og ég reyndi að undirbúa mína menn rétt undir þetta en við létum þá svolítið stjórna hraðanum og látunum hér í dag.“

Arnar var sáttur við karakterinn í sínum mönnum í dag. 

„Það er bara framundan leikir á móti Val og svo FH eftir það. Síðan eru við bara komnir í jólafrí. Mér finnst þetta svekkjandi tap á móti KA, svekkjandi tap á móti Fram í annarri eða þriðju umferðinni, svekkjandi tap á móti Val í fyrstu umferðinni. Það telur allt og ef við ætlum að vera í einhverri baráttu á að fara í úrslitakeppnina þá er þetta rándýrt en við erum ekkert að hugsa um það. Við erum bara að djöflast í hverjum leik. Karakterinn í drengjunum í dag er engu líkur, ég held það sé ekkert lið sem er með eins mikinn karakter eins og Grótta. Við vorum að tapa hér með sjö mörkum og allt á móti okkur en erum samt eru við í mómentunni að geta jafnað leikinn í lokinn og það má ekki gleyma því.“


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira