Sport

Fallon Sherrock heldur áfram að stríða körlunum og skrifa pílusöguna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fallon Sherrock er komin í útsláttarkeppni the Grand Slam of Darts, fyrst kvenna.
Fallon Sherrock er komin í útsláttarkeppni the Grand Slam of Darts, fyrst kvenna. getty/Gregor Fischer

Fallon Sherrock heldur áfram að skrifa pílusöguna en í gær varð hún fyrsta konan til að komast í sextán manna úrslit Grand Slam of Darts.

Sherrock vann þá Gabriel Clemens á dramatískan hátt í lokaleik sínum í E-riðli. Clemens komst í 3-1 í viðureigninni en Sherrock vann síðustu þrjá leggina og tryggði sér sigurinn.

Hún kláraði dæmið með frábæru 170 útskoti. Lokapílan endaði í miðju spjaldsins við mikinn fögnuð viðstaddra. Sherrock er með hæsta útskot allra keppenda á mótinu til þessa.

„Ég er enn að komast niður á jörðina. Ég veit ekki alveg hvað ég hef gert,“ sagði Sherrock eftir sigurinn. „Að taka út 170 til að vinna. Ég er venjulega ekki góð að hitta í miðjuna en er vön að gera það til að vinna leiki.“

Sem fyrr sagði er Sherrock fyrsta konan til að komast í sextán manna úrslit the Grand Slam of Darts þar sem sterkustu pílukastarar heims leiða saman hesta sína.

Mörgum er í fersku minni framganga Sherrocks á HM 2020. Þar varð hún fyrsta konan til að vinna leik á HM. Raunar vann hún tvo leiki og komst í sextán manna úrslit.

Í 32 manna úrslitunum á HM 2020 vann Sherrock Mensur Suljovic, sama manni og hún mætir í sextán manna úrslitunum á the Grand Slam of Darts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×