Körfubolti

„Það væri gaman að fá Njarðvík“

Atli Arason skrifar
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur.
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur. Vísir/Hulda Margrét

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var glaður að vera kominn áfram í bikarkeppninni eftir sigur á KR á heimavelli í kvöld, 84-77.

Keflavík verður því með í pottinum í hádeginu á morgun þegar dregið verður í 8-liða úrslit. Liðin sem verða í pottinum auk Keflavíkur eru Njarðvík, Valur, Þór Þ., Haukar, ÍR, Grindavík og Stjarnan. 

Aðspurður að óskamótherja í 8 liða úrslitum þá kveðst Hjalti vera spenntur fyrir nágrannaslag.

„Það væri gaman að fá Njarðvík. Það væri rosalega gaman fyrir bæjarfélagið en að öðru leyti eru þetta allt góð lið og við tökum bara næsta mótherja sama hver það verður,“ svaraði Hjalti Þór Vilhjálmsson í viðtali við Vísi eftir leik.

Það var í raun frábær seinni hálfleikur hjá heimamönnum sem skilaði því að þeir unnu leikinn en Keflvíkingar byrjuðu leikinn í kvöld mjög illa og töpuðu fyrsta leikhluta með 11 stigum, 22-33, en unnu svo alla hina leikhlutana. Þrátt fyrir það var Hjalti í raun bara sáttur með síðasta fjórðunginn hjá sínum mönnum.

„Ég er mjög ánægður með að vera kominn áfram í 8 liða úrslit, Það er það sem skiptir máli en mér fannst við vera rosalega flatir til að byrja með og í raun flatir alveg fyrstu þrjá leikhlutana. Það kom svo smá orka með Dóra og Magga í fyrri hálfleik en að öðru leyti fannst mér við geta gert miklu meira orkulega séð. Við gerðum annars vel í að klára þennan leik,“ sagði Hjalti.

„Þetta var rosa flatt og rosa skrítið. Kannski voru menn að gera of mikið úr þessum leik fyrir fram. Þetta er náttúrulega bara körfubolti og menn eru enn þá að læra inn á hvorn annan.“

Það var mikill munur á liði Keflavíkur á milli hálfleikja, Hjalti vildi þó ekki meina að hálfleiksræðan sín hafi skipt sköpum í viðsnúningi Keflavíkur, en heimamenn voru sex stigum undir í hálfleik.

„Nei nei, við fórum bara yfir grunnatriðin. Okkur vantaði orku í leik okkar, það var númer eitt tvö og þrjú. Við vorum að leyfa þeim að koma upp með boltann og það var enginn pressa á boltanum eða neitt slíkt. Við vorum hálf flatir og við ákvöðum að laga það í seinni hálfleik. Það var það sem skóp þennan sigur,“ sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×