Körfubolti

Meira en þúsund dagar síðan heimalið fagnaði sigri í leikjum KR og Njarðvíkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maciek Stanislav Baginski hefur oft spilað vel með Njarðvík á móti KR.
Maciek Stanislav Baginski hefur oft spilað vel með Njarðvík á móti KR. Vísir/Bára Dröfn

Í kvöld fer fram leikurinn í úrvalsdeild karla í körfubolta þar sem heimaliðinu virðist hreinlega vera fyrirmunað að vinna.

KR tekur þá á móti Njarðvík í fjórðu umferð Subway-deildar karla og nú er spurning hvort liðin brjóti þessa hefð síðustu ára.

Það eru nefnilega liðnir 1085 dagar síðan að heimaliðið fagnaði sigri í innbyrðis leik KR og Njarðvík í úrvalsdeild karla.

Síðasti heimasigurinn í leikjum þessara liða var 9. nóvember 2018 þegar Njarðvíkingar unnu glæsilegan sigur í Ljónagryfjunni.

Njarðvíkingar unnu leikinn 85-67 í Njarðvík þar sem Mario Matasovic skoraði 24 stig og Maciek Stanislav Baginski var með 17 stig. Julian Boyd skoraði 25 stig fyrir KR í þeim leik en Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur íslensku leikmannanna með 10 stig. Björn Kristjánsson er eini leikmaður KR sem var í þeim leik og er enn að spila.

Útiliðið hefur unnið fimm síðustu leikina þegar liðin hafa mæst þar af hafa Njarðvíkingar unnið þrjá síðustu leiki sína í Vesturbænum.

KR tókst síðast að vinna Njarðvík á heimavelli í úrslitakeppninni vorið 2018 en síðasti heimasigur Vesturbæinga á móti Njarðvík í deildinni var 22. mars 2018.

Leikur KR og Njarðvíkur hefst klukkan 20.15 í kvöld og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Strax á eftir mun Subway-Körfuboltakvöld gera upp alla fjórðu umferðina á sömu stöð.

  • Síðustu sex innbyrðis leikir KR og Njarðvíkur:
  • 4. mars 2021: KR vann 4 stiga útisigur í Ljónagryfjunni (81-77)
  • 1. október 2020: Njarðvík vann 12 stiga útisigur í DHL-höllinni (92-80)
  • 1. mars 2020: KR vann 6 stiga útisigur í Ljónagryfjunni (87-81)
  • 21. nóvember 2019: Njarðvík vann 3 stiga útisigur í DHL-höllinni (78-75)
  • 4. febrúar 2019: Njarðvík vann 16 stiga útisigur í DHL-höllinni (71-55)
  • 9. nóvember 2018: Njarðvík vann 18 stiga heimasigur í Ljónagryfjunni (85-67)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×