Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - ÍR 105-93| Þriðji sigur Þórs Þorlákshafnar í röð

Andri Már Eggertsson skrifar
visir-img
vísir/Bára

Þór Þorlákshöfn vann sinn þriðja leik í röð þegar Þór tók á móti stigalausum ÍR-ingum. Þór vann sig betur og betur inn í leikinn þegar á leið og enduðu Íslandsmeistararnir á að vinna með 12 stigum 105-93.

Það var áhugavert að sjá hvernig stiga- og Borche Ilievski lausir ÍR-ingar myndu mæta Íslandsmeisturum Þórs frá Þorlákshöfn. Ísak Wíum var fenginn tímabundið til að stýra liðinu og Sveinbjörn Claessen til að aðstoða hann. Ísak Wíum er 22 ára og þjálfaði kvennalið ÍR á síðasta tímabili.

Fyrri hálfleikur var leikur sóknarinnar. Tomas Zdanavicius kveikti í samherjum sínum í ÍR snemma leiks með laglegri troðslu og er ég ekki frá því að stuðningsfólk Þórs hafi klappað.

Bæði lið tóku sín áhlaup í fyrri hálfleik og átti ÍR það fyrsta þegar 1. leikhluti var tæplega hálfnaður gerði ÍR níu stig í röð og komst 8-13 yfir. Þór var þó ekki lengi að svara því og var tveimur stigum yfir þegar leikhlutinn kláraðist 29-27.

Glynn Watson og Colin Pryor voru drjúgir fyrir sín lið og sáu mestmegnið um að koma stigum á töfluna. Glynn gerði 16 stig í fyrri hálfleik og Colin Pryor skoraði 15 stig.

Sóknarleikur beggja liða róaðist aðeins í öðrum leikhluta. Þór var betri aðilinn og endaði á að vera sjö stigum yfir í hálfleik 52-45.

Þrátt fyrir að vinna 3. leikhluta aðeins með fimm stigum voru Þórsarar með miklu meiri yfirburði en tölfræðin gaf til kynna og hefðu vel getað skorað fleiri stig. Boltinn gekk hratt milli manna hjá Þórs liðinu sem fékk mikið af opnum skotum eða auðveldum körfum nálægt hringnum. ÍR aftur á móti þurfti að blæða fyrir hverja einustu körfu.

Þór Þorlákshöfn gerði snemma í 4. leikhluta sex stig í röð og tók Ísak Wíum, þjálfari ÍR, viðstöðulaust leikhlé nánast áður en þriggja stiga karfa Þórs fór ofan í.

Eftir leikhlé Ísaks gáfu Íslandsmeistararnir enn meira í og voru fljótlega komnir tuttugu stigum yfir. Orka leiksins var þannig að það var einungis spurning hversu stór sigur Þórs yrði. Þór Þorlákshöfn vann leikinn með tólf stigum 105-93.

Af hverju vann Þór Þorlákshöfn

Þór Þorlákshöfn var betri aðilinn allan leikinn. Þór vann sig betur og betur inn í leikinn þegar á leið og hafði maður aldrei á tilfinningunni að ÍR myndi gera tilkall til að vinna leikinn þrátt fyrir nokkur stutt áhlaup. 

Þór Þorlákshöfn fann fjölina sína í seinni hálfleik og komst mest 24 stigum yfir.

Hverjir stóðu upp úr?

Lárus Jónsson, þjálfari Þór Þorlákshafnar, taldi Davíð Arnar Ágústsson besta mann Þórs í leiknum. Það er vel hægt að taka undir þau orð. Davíð endaði á að gera 19 stig og skila 20 framlagspunktum.

Glynn Watson var stiga, frákasta og stoðsendingahæsti leikmaður Þórs í kvöld. Glynn gerði 28 stig, tók 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. 

Hvað gekk illa?

Varnarleikur ÍR leit illa út á löngum köflum. Þór endaði á að gera 105 stig og fékk afar mikið af opnum skotum og auðveldum sniðskotum. 

Þór Þorlákshöfn tók tíu fráköstum meira en ÍR. Þór gerði 25 stig þegar þeir fengu fleiri en eitt tækifæri í sömu sókninni á meðan ÍR gerði aðeins 5 stig. 

Hvað gerist næst?

Næsta fimmtudag mætast ÍR og Þór Akureyri í TM-hellinum klukkan 18:15.

Á sama degi eigast við liðin sem léku til úrslita á síðasta tímabili. Þór Þorlákshöfn sækir Keflavík heim klukkan 19:15 í Blue-höllinni.

Ísak Wíum: Óska ekki eftir því að þjálfa ÍR út tímabilið

Ísak Wíum, þjálfari ÍR, var svekktur með tap kvöldsins. 

„Mér fannst þreyta og orkuleysi tapa þessum leik fyrir okkur. Varnarleikplanið gekk ágætlega upp. Þrátt fyrir að þeir gerðu 52 stig í fyrri hálfleik fannst mér við taka frá þeim það sem við vildum taka frá þeim,“ sagði Ísak Wíum eftir leik.

Að mati Ísaks fékk Þór allt of mikið af auðveldum körfum sem fór illa með ÍR. 

„Við litum ekkert sérstaklega vel út á köflum. Þegar Þór fór að gefa þessar aukasendingar litum við ekki nógu vel út varnarlega. Við vorum einfaldlega búnir á því og samskiptaleysi gerði það að verkum að við vissum ekki hvað við áttum að gera undir lok leiks.“

Ísak Wíum þjálfaði ÍR í leik kvöldsins vegna brotthvarfs Borche Ilievsk en sækist þó ekki eftir starfinu út tímabilið.

„Nei ég óska ekki eftir því að þjálfa ÍR út tímabilið vegna þess ég er í öðrum verkefnum hjá félaginu og vonandi klárar stjórn ÍR þjálfaramálin sem fyrst,“ sagði Ísak að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira