Körfubolti

Fjölniskonur snéru leiknum við í þriðja leikhluta | Keflvíkingar unnu stórt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aliyah Daija Mazyck átti stórleik í liði Fjölnis.
Aliyah Daija Mazyck átti stórleik í liði Fjölnis. Vísir/Bára

Keflavík og Fjölnir unnu sigra í seinni tveim leikjum kvöldsins í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Fjölniskonur snéru blaðinu við í þriðja leikhluta gegn Grindavík og unnu góðan fimm stiga sigur, 89-84, og Keflvíkingar unnu Breiðablik með 21 stigi, 80-59.

Heimakonur í Fjölni höfðu forystuna lengst af í fyrsta leikhluta, en gott áhlaup gestanna undir lok leikhlutans skilaði þeim sjö stiga forskoti inn í annan leikhlutann.

Mikið jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta, en Grindvíkingar fóru inn í hálfleikinn með átta stiga forskot, 61-53.

Fjölniskonur spiluðu virkilega vel í þriðja leikhluta og skoruðu 20 stig gegn aðeins átta stigum gestanna. Staðan fyrir lokaleikhlutann var því 73-69, Fjölniskonum í vil.

Mikið jafnræði var með liðunum í lokaleikhlutanum, en að lokum voru það heimakonur sem unnu góðan fimm stiga sigur, 89-84.

Aliyah Daija Mazyck átti stórleik í liði Fjölnis, en skoraði 32 stig, tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þegar Keflvíkingar tóku á móti Breiðablik fyrr í kvöld. Heimakonur voru þó alltaf með yfirhöndina og að loknum fyrsta leikhluta var munurinn fimm stig, 25-20.

Áfram héldu Keflvíkingar að auka forskot sitt jafnt og þétt og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 40-32.

Keflvíkingar gerðu svo að miklu leiti út um leikinn í þriðja leikhluta, en þá skoruðu þær 19 stig gegn aðeins tíu stigum gestanna.

Fjórði leikhluti var svo svipaður fyrri hálfleik þar sem að heimakonur juku forskot sitt lítillega og unnu að lokum öruggan 21 stigs sigur, 80-59.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×