Körfubolti

Benedikt: Fengum flugeldasýningu frá Óla Óla

Smári Jökull Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson hefur byrjað vel með Njarðvíkurliðið sem tapaði þó í kvöld.
Benedikt Guðmundsson hefur byrjað vel með Njarðvíkurliðið sem tapaði þó í kvöld. Vísir / Hulda Margrét

„Klárlega ekki okkar besta frammistaða en ýmislegt jákvætt. Ég er ekki að detta í þunglyndi þó við höfum tapað þessum leik, þetta var 50/50 leikur á erfiðum útivelli gegn góðu liði,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur eftir tapið gegn Grindavík í Subway-deildinni í kvöld.

„Það er erfitt að vinna á útivelli í þessari deild, þú þarft að hitta á toppleik og við náðum því ekki núna. Við fengum flugeldasýningu frá Óla Óla sem skipti algjörlega sköpum,“ en áðurnefndur Ólafur skoraði sjö þriggja stiga körfur í kvöld.

Fotios Lampropoulos fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta hjá Njarðvík og það gerði baráttuna undir körfunni gegn hinum geysiöfluga Ivan Aurrecoechea enn erfiðari.

„Við erum búnir að vera alveg að sársaukamörkum varðandi meiðsli og það var vont að missa Loga Gunnarsson. Það síðasta sem við máttum við núna var að missa mann í villuvandræði og hvað þá Fotios. Ef einhver hefði átt að lenda í því þá mátti það ekki vera hann. Það gerðist og við vorum ekki sammála því.“

„Mér fannst við ná að halda okkur inni í leiknum á meðan. Síðan snerist þetta um hver ætlaði að setja stóra skotið í lokin og það kom frá þeim.“

Ákefðin var mikil hjá leikmönnum og þjálfurum í kvöld. Benedikt og Daníel Guðni Guðmundsson kollegi hans hinu megin fengu báðir tæknivillur og það var vel mætt í stúkuna þar sem stemmningin var frábær.

„Ég er búinn að vera lengi í þessu og leikirnir í dag eru flestir eins og úrslitakeppnin var fyrir nokkrum árum. Áður fyrr var talað um að toppa í úrslitakeppninni og menn kannski ekki beint að spara sig, en mögulega ekki að setja allt sem þeir áttu svona snemma á tímabilinu.“

„Núna þarftu bara að gera það frá byrjun til þess að vera með í úrslitakeppninni því það eru alltaf einhver góð lið sem sitja eftir. Þess vegna eru leikirnir eins og þetta sé úrslitakeppni alltaf,“ sagði Benedikt að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.