Sport

Áhorfandi þurfti að gefa Tom Brady aftur bolta sem var meira en 64 milljóna virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Áhorfandinn gefur hér boltann aftur til búningstjóra Tampa Bay liðsins en til hægri þakkar Tom Brady áhorfendum eftir leik.
Áhorfandinn gefur hér boltann aftur til búningstjóra Tampa Bay liðsins en til hægri þakkar Tom Brady áhorfendum eftir leik. Samsett/AP/Jason Behnken

Tom Brady varð í gær fyrsti leikstjórnandinn í sögu NFL-deildarinnar til að gefa sex hundruð snertimarkssendingar en því náði kappinn í sannfærandi 38-3 sigri Tampa Bay Buccaneers á Chicago Bears.

Brady gaf þessa sögulega sendingu strax í fyrsta leikhlutanum þegar hann fann útherjann Mike Evans. Evans var aftur á móti ekki alveg með söguna á hreinu. Evans hljóp nefnilega með boltann upp í stúku og gaf einum kátum stuðningsmanni Tampa Bay Buccaneers liðsins.

Brady vildi auðvitað fá boltann og búningsstjóri Tampa Bay Buccaneers fór því til áhorfandans og fékk hann til að skipta á boltum.

Sérfræðingar voru hins vegar fljótir að benda á það að áhorfandinn hefði þarna tapað að minnsta kosti fimm hundruð þúsund Bandaríkjadölum eða meira en 64 milljónum króna. Boltinn hefði líklega verið enn meira virði á endursölumarkaðu.

Þarna var besti leikmaðurinn í sögu NFL-deildarinnar að ná tímamótaárangri sem ólíklegt er að nokkur annar leikstjórnandi muni ná. Brady var þegar búinn að eignast metið yfir flestar snertimarkssendingar en Drew Brees var með 571 þegar hann setti skóna upp á hillu eftir síðasta tímabil.

Það voru því margir sem vildu að umræddur áhorfandi fengi miklu meira en annan bolta eða áritaða treyju frá Tom Brady. Það má búast við því að einhverjir fjölmiðlar í Tampa Bay munu ræða við hann í vikunni.

NFLFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.