Fótbolti

Solskjær: Minn versti dagur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Í brekku.
Í brekku. vísir/Getty

Manchester United hefur sjaldan séð verri daga en í dag eftir að liðið beið lægri hlut fyrir erkifjendum sínum í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Frammistaða Man Utd var vægast sagt hræðileg og átti vel skipað lið Liverpool ansi þægilegan dag á Old Trafford og höfðu frekar lítið fyrir því að skora fimm mörk.

„Það er erfitt að segja eitthvað annað en að þetta er minn versti dagur síðan ég tók við liðinu. Við vorum ekki nógu góðir og þú getur ekki gefið liði eins og Liverpool svona tækifæri en því miður gerðum við það,“ sagði vonsvikinn Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd í leikslok.

„Hver ber ábyrgðina? Það er ég. Við höfum frábært þjálfarateymi. Ég vel leikaðferðina og hvernig við nálgumst leikina. Við vorum ekki nógu klíniskir og gáfum þeim of mikið pláss. Þegar þú gefur góðum leikmönnum pláss þá skora þeir,“ sagði Solskjær.

„Við töpuðum 6-1 fyrir Spurs í fyrra en þetta er miklu, miklu verra. Við þurfum að komast yfir þetta eins hratt og mögulegt er.“

Þrátt fyrir afleita spilamennsku að undanförnu er ekki bilbug að finna á Norðmanninum þegar hann var spurður út í sína framtíð sem þjálfari liðsins.

„Ég er kominn of langt og við sem hópur erum komnir of langt. Við erum of nálægt þessu til að gefast upp núna.“

„Þetta verður erfitt og við vitum að nú er botninum náð. Við getum ekki gert verr en þetta og við skulum sjá hvernig við bregðumst við,“ sagði Solskjær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×