Erlent

Telja Delta-plús meira smitandi en ekki valda al­var­legri veikindum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vísindamenn vakta ný afbrigði kórónuveirunnar.
Vísindamenn vakta ný afbrigði kórónuveirunnar. Getty

Stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar er mögulega talið geta smitast greiðlegar en fyrri afbrigði. Ekkert hefur þó komið fram um að það valdi alvarlegri veikindum en Delta-afbrigðið, sem riðið hefur yfir heimsbyggðina á síðustu mánuðum.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að nýja afbrigðið, sem af einhverjum hefur verið nefnt „Delta-plús,“ hafi verið fært á lista yfir þau afbrigði sem eru til rannsóknar hjá Heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands (UKHSA).

Þau gögn sem til eru um afbrigðið benda til þess að afbrigðið sé meira smitandi en Delta-afbrigðið, en ekki að veikindin sem það veldur séu alvarlegri. Þá telja vísindamenn að þau bóluefni sem þegar hafa verið þróuð veiti góða vernd gegn afbrigðinu.

Delta-afbrigðið er ráðandi í Bretlandi líkt og víða annars staðar, en þar í landi hefur tilfellum Delta-plús, sem fellur í eins konar undirflokk Delta-afbrigðisins, fjölgað. Fræðilegt heiti afbrigðisins er AY.4.2, en um sex prósent þeirra sem greinst hafa með Delta í Bretlandi hafa greinst með Delta-plús.

„Þessi undirflokkur hefur orðið algengari í Bretlandi á síðustu mánuðum og frumgögn benda til þess að smittíðni hans í landinu sé hærri en Delta-afbrigðisins,“ hefur BBC eftur UKHSA.

Breska ríkisútvarpið segir sérfræðinga þó ekki hafa miklar áhyggjur af því að Delta-plús kunni að verða ráðandi, eða að bóluefni hafi minni áhrif á það. Afbrigðið er enn sem komið er ekki á lista yfir þau afbrigði sem gefi tilefni til sérstakra áhyggja, sem er alvarlegasti flokkurinn í þessum fræðum.

Afbrigðið hefur meðal annars greinst í Bandaríkjunum og í Danmörku, en í síðarnefnda ríkinu hefur virkum tilfellum afbrigðisins fækkað á síðustu dögum.


Tengdar fréttir

Fylgjast grannt með nýjum afbrigðum

Vísindamenn víða um heim vakta nú og fylgjast grannt með upplýsingum um ný afbrigði kórónuveirunnar. Reuters greinir frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.