Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - KR 90-80 | Grindvíkingar snéru leiknum við í þriðja leikhluta

Atli Arason skrifar
Grindvíkingar unnu góðan sigur gegn KR-ingum í kvöld.
Grindvíkingar unnu góðan sigur gegn KR-ingum í kvöld. Vísir/Bára

Grindvíkingar unnu í kvöld góðan tíu stiga sigur þegar KR-ingar mættu í heimsókn. Lokatölur 90-80, en ótrúlegur viðsnúningur í þriðja leikhluta skóp sigur heimamanna.

Leikurinn fór mjög jafn af stað en bæði lið skiptust á að setja niður körfur í upphafi en KR-ingar voru þó einu skrefi á undan. Forystan sveiflaðist á milli liða en heilt yfir var hún oftar í höndum gestanna. KR náði einnig að búa til mesta mun sem var á milli liðanna í fyrsta leikhluta, 5 stig. Þökk sé þrist frá Kidda Páls, leikmanni Grindavíkur, undir lok fyrsta leikhluta þá unnu KR-ingar þann fjórðung með einungis tveimur stigum, 19-21.

Vesturbæingar héldu áfram að vera skrefi á undan í öðrum leikhluta en framan af leikhlutanum var KR tveimur til fimm stigum yfir. Um miðbik annars leikhluta þá gefa gestirnir meira í. 8-0 kafli hjá KR sá til þess að þeir svart-hvítu náðu í 10 stiga forskot í stöðunni 28-38 og tæpar 5 mínútur eftir af leikhlutanum. KR hélt áfram að keyra yfir heimamenn en þeir náðu mest 13 stiga forystu eftir sniðskot Almars Orra þegar tvær mínútur voru til hálfleiks, það var mesta forskot sem KR náði í leiknum áður en allt fór niður á við fyrir gestina. Heimamenn ná að laga stöðuna aðeins fyrir hálfleikinn meðal annars með þristum frá Kristófer Breka og Kidda Páls. Liðin gengu því til búningsherbergja í hálfleik með 8 stig á milli sín, 43-51.

Þriðji leikhlutinn í þessum leik var hálf ótrúlegur og nánast erfitt að lýsa honum. Það var nánast bara eitt lið á vellinum. Þriðji leikhluti hefur verið Akkilesarhæll Grindvíkinga í mörgum leikjum undanfarið en það var alls ekki raunin í kvöld. Heimamenn hófu leikhlutann á því að skora fyrstu 9 stigin og ná því forystunni af KR-ingum, 52-51. Á sama tíma þá small vörnin hjá heimamönnum saman en KR gekk illa að finna opin skot og Grindvíkingar náðu alls að stela 6 boltum af KR í þessum leikhluta. Hægt og rólega keyrðu Grindvíkingar yfir KR í þriðja leikhluta en á hverri mínútu voru Grindvíkingar að skora tæpum tveimur stigum meira en KR. liðsheild heimamanna var frábær og stigin dreifðust jafnt á liðið. Fór svo að lokum að Grindavík vann þriðja leikhluta með 18 stigum, 28-10, og eftir þetta var ekki aftur snúið en staðan að loknum þriðja leikhluta var 71-61.

Loka fjórðungurinn var sá jafnasti í þessum leik. Gestirnir úr Vesturbænum voru staðráðnir að bíta frá sér og koma til baka. KR gerði töluvert betur en það sem liðið sýndi í þriðja leikhluta en Grindvíkingar voru einfaldlega komnir í of mikið stuð. Alltaf þegar KR gerði eitthvað áhlaup á Grindavík þá svöruðu heimamenn um hæl. Minnstur var munurinn í þessum fjórðung 6 stig og mest var hann 12 stig, Grindavík í vil. Fór svo að lokum að Grindvíkingar unnu 10 stiga sigur, 90-80.

Afhverju vann Grindavík?

Það er þessi þriðji leikhluti sem skilar þessu fyrir heimamenn en það var jafnframt eini leikhlutinn sem Grindavík vann í þessum leik. Eitthvað hefur Daníel sagt við sína menn í hálfleik sem kveikti í þeim en Grindvíkingar voru einfaldlega á eldi í þriðja leikhluta.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn Pálsson var fremstur meðal jafningja í liði Grindavíkur. Kiddi var með 42% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna og skoraði alls 18 stig, allt þristar. Kiddi gaf þar að auki 8 stoðsendingar og tók 4 fráköst sem skilar honum alls 24 framlangspunktum.

Í liði KR var Adama Darbo bestur. Darbo spilaði með Grindavík árin 2007 og 2008 og var því að kunnuglegum slóðum. Darbo skilaði alls 20 stigum fyrir KR og endaði með 24 framlangspunkta eins og Kiddi Páls.

Hvað gerist næst?

Bæði lið spila næst við Njarðvík. KR-ingar fá lengri pásu en þeir fá Njarðvíkinga í heimsókn föstudaginn 29. Grindavík á heimaleik gegn Njarðvík næsta mánudag.

„Ég geri mistök að hafa ekki kippt í taumana fyrr“

Helgi Már Magnússon er þjálfari KR-ingavísir/hanna

Helgi Már Magnússon, þjálfari KR, kennir þriðja leikhlutanum um tapið í kvöld og horfir í eigin barm.

„Fyrri hálfleikur hjá okkur var mjög flottur. Það kom framlag frá öllum og kraftur í öllu sem við vorum að gera. Grindavík hitti samt úr fullt af erfiðum skotum í fyrri hálfleik, það voru allavegana tvö eða þrjú sem voru á loka sekúndum skot klukkunnar. Svo er það þriðji leikhlutinn, við komum svakalega flatir í hann og það er óásættanlegt. Ég geri mistök að hafa ekki kippt í taumana fyrr,“ sagði Helgi í viðtali við Vísi eftir leik.

Aðspurður að því hvort Grindvíkingar hefðu verið svona góðir í þriðja leikhluta eða KR einfaldlega lélegir þá stóð Helgi ekki á svörum.

„Við vorum lélegir. Þeir voru að hlaupa sín kerfi vel og allt það en við framkvæmdum varnar hlutverkin okkar ekki vel. Þetta var allt rosalega þægilegt hjá þeim. Þeir vissu hvert þeir ættu að fara og við gerðum ekkert til að hindra að þeir fengu að fara þangað sem þeir vildu. Þeir voru að velja og við vorum of mikið að reyna bara að bregðast við hvað þeir vildu gera,“ svaraði Helgi.

„Fyrri hálfleikurinn var fínn, en síðari hálfleikurinn og sérstaklega þriðji leikhlutinn var hörmung,“ sagði svekktur Helgi Már Magnússon.

„Þetta var bara liðsbolti“

Daníel Guðni Guðmundsson, var kampakátur með sigurinn gegn KR í kvöld.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna og sérstaklega í seinni hálfleik. Það er ljúft að ná í tvö stig hérna í kvöld,“ sagði Daníel í viðtali við Vísi eftir leik.

„KR-ingar voru með miklu meiri ákefð en við í fyrri hálfleik og ég átta mig eiginlega ekki afhverju. Það var smá vesen í fyrri hálfleik með varnarleikinn en strákarnir stigu heldur betur upp í seinni hálfleik og ákveddu að gera miklu betur en áður og þriðji leikhluti var bara frábær.“

„Við héldum áfram bæði í sókn og vörn og fundum lausnir við því sem við áttum í erfiðleikum með í fyrri hálfleik og við gerðum það bara virkilega vel. Það voru allir rosalega ákveðnir í sínum aðgerðum í seinni hálfleik, að skjóta og taka á skarið. Það virkaði bara virkilega vel.“

Daníel sagði í viðtali fyrir leik að hann hefði séð ákveðna veikleika í vörn KR sem hann ætlaði sér að nýta í þessum leik.

„Veikleikar og ekki veikleikar. Maður sér hvernig þeir spila vörn og við aðlöguðumst vel af því. Við sjáum að Naor [Sharabani] og Kiddi [Páls] eru með 7 og 8 stoðsendingar hvor. Við finnum Ivan vel inn í teig og hann var líka duglegur að henda boltanum út. Þetta var bara liðsbolti og gekk virkilega vel,“ svaraði Daníel aðspurður af því hvort það hefði gengið vel að nýta sér þessa veikleika sem hann sagðist hafa séð í vörn KR fyrir leik.

Næsti leikur Grindavíkur er nágranna slagur gegn Njarðvík, sem margir spáðu myndu vinna deildina í ár. Danni kveðst hlakka til þess leiks.

„Við ætlum að halda okkar striki, þrátt fyrir að við séum að spila við eitt af besta liði landsins á mánudaginn þá verðum við bara að fókusa á okkur, hverju við getum stjórnað og hvernig frammistöðu við ætlum að sýna á mánudaginn. Ég hlakka bara til þess,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.