Innlent

Auð­velda fólki að sann­reyna skimunar­vott­orð með nýju appi

Eiður Þór Árnason skrifar
Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. Vísir/Vilhelm

Embætti landlæknis hefur gefið út smáforritið Skanni C-19 sem gerir viðburðahöldurum kleift að staðfesta hvort vottorð um neikvæða niðurstöðu Covid-skimunar sé gilt.

Smáforrið er sérstaklega hannað til að auðvelda dyravörðum og öðrum sem sinna gæslu fyrir viðburði að sannprófa gildi vottorða. Er þetta gert með því að lesa QR-kóða vottorðsins, hvort sem það er af skjá eða af pappír.

Samkvæmt gildandi samkomutakmarkönum er heimilt að hafa allt að 1.500 manns á viðburðum, svo lengi sem gestir fæddir 2005 og fyrr framvísi neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi.

Þekkir vottorð frá 43 löndum

Þar sem Skanni C-19 er sérhannaður vegna takmarkana á fjöldasamkomum þá munu einungis þau vottorð teljast gild í Skanna C-19 forritinu sem staðfesta neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi og hraðprófi. Bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri veikindi munu ekki teljast gild í forritinu.

Greint er frá þessu á vef landlæknisembættisins en ef vottorðið er gilt þá birtist grænn flötur á skjánum, en annars rauður flötur. Skanni C-19 les einnig nafn og fæðingardag vottorðshafans þannig að hægt sé að tengja við önnur persónuskilríki.

Grænn flötur birtist á skjánum þegar vottorð hefur verið sannreynt.Embætti landlæknis

Öll Covid-19 vottorð sem gefin eru út hér á landi með QR-kóða eru samræmd við evrópsku EU Digital COVID Certificate (EU DCC) vottorðin. Skanni C-19 mun því geta lesið Covid-19 vottorð frá alls 43 löndum sem gefa út EU DCC vottorð.

Að sögn landlæknisembættisins geymir Skanni C-19 engar upplýsingar úr QR-kóða vottorðsins. Sannprófun á vottorðinu fer fram í smáforritinu sjálfu svo það þarf ekki tengingu við ytra kerfi þegar QR-kóðinn er lesinn og staðfestur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×